151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

loftslagsmál.

32. mál
[19:14]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ætli það sé ekki einhver besti dómur sem hægt er að fá á þingmál að það samrýmist heilbrigðri skynsemi? Ég þakka þau góðu orð. Efasemdir fólks um róttækar aðgerðir horfa fram hjá því að án aðgerða tekur veruleikinn miklu róttækari breytingum. Sú framtíðarsýn sem aðgerðaleysi býður upp á er miklu dýrkeyptari en það sem við leggjum í aðgerðir til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun.

Líkt og hv. þingmaður nefndi geta aðgerðir síðan hreinlega verið drifkraftur jákvæðrar þróunar. Aðgerðir í þágu loftslagsmála geta aukið jafnrétti, jöfnuð og lífsgæði almennt. Þær geta líka verið efnahagslega skynsamlegar, nefnum sem dæmi þá miklu fjárfestingu sem fara á í vegna borgarlínu upp á tugmilljarða. Ábatinn er bara miklu meiri, tugum milljarða meiri, þannig að flestar aðgerðir í þágu loftslagsmála samrýmast heilbrigðri skynsemi.

Varðandi 70% markið sem ég hef að láni frá Danmörku: Það styttist í að Evrópusambandið setji markið einhvers staðar á bilinu 55–60%, þannig að það er ekki himinn og haf á milli. En svo megum við ekki gleyma því að ef við erum í 100% núna er samþykkt og yfirlýst stefna Íslands að vera kolefnishlutlaust 2040. Það er 20 ára tímabil. Það er 100% samdráttur. Það sem við erum að tala um hér er að á miðju tímabilinu séum við komin tvo þriðju af leiðinni niður í 100% samdrátt, (Forseti hringir.) sem ég held að sé skynsamlegt í ljósi þess að fyrstu aðgerðirnar sem hægt er að grípa til eru líka þær sem (Forseti hringir.) skilað geta mestum árangri. Það eru síðan innansleikjurnar á síðustu árunum sem verða erfiðari.