151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tekjufallsstyrki. Frumvarpið er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Í þessu máli er lagt til að einstaklingar og litlir lögaðilar í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir verulegum tekjumissi geti fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði. Úrræðinu er m.a. ætlað að mæta vanda fólks sem starfar í menningar- og listgreinum eða þjónustar þann geira, en að sjálfsögðu nær úrræðið einnig til margra fleiri aðila, til að mynda aðila í ferðaþjónustu, svo sem ferðaleiðsögumanna. Úrræðið nær einfaldlega til allra þeirra sem uppfylla skilyrðin. Hér eru þessir hópar aðeins nefndir í dæmaskyni fyrir nokkuð fjölmenna hópa sem við vitum að líklegt er að geti nýtt sér úrræðið.

Í frumvarpinu er þannig lagt til að það sé skilyrði fyrir styrkveitingu að umsækjandi hafi orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september samanborið við sama tímabil 2019 og tekjufallið verði rakið til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að bregðast við útbreiðslu faraldursins. Ég ætla að leyfa mér að nefna það hér að mér finnst koma til álita í ljósi þess hvernig sóttvarnaráðstafanir hafa þróast að þingið athugi að lengja þetta tímabil eitthvað, t.d. að bæta við einum mánuði. Það þætti mér vel komið til greina. En uppleggið í þessu máli er að við séum að horfa á tímabil sem er liðið. Það er vegna þess að við þurfum að hafa eitthvert rekstrartímabil um tekjufall til samanburðar við eldra tímabil og erum þess vegna ekki að horfa inn í framtíðina. Það getur aftur þýtt að einhvern tímann á síðari stigum, eftir því sem þurfa þykir, gæti aftur komið til þess að við kæmum með úrræði af slíkum toga.

Ég hef nefnt sérstaklega tekjufallsskilyrðið, þ.e. varðandi 50% tekjufallið. Að auki er lagt til að umsækjendur þurfi að uppfylla sömu eða sambærileg skilyrði og þeir sem geta fengið lokunarstyrki. Þetta á við um skattskyldu á Íslandi, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til skattsins og að hafa ekki verið teknir til gjaldþrotaskipta o.s.frv. Þá þurfa umsækjendur að hafa verið með a.m.k. 1 millj. kr. í veltu á árinu 2019 og starfsemin þarf að hafa hafist fyrir 1. apríl 2020. Lagt er til að tekjufallsstyrkur jafngildi rekstrarkostnaði á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 1. október 2020 en geti þó að hámarki orðið 400.000 kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu. Fyrir einyrkja geti styrkurinn því að hámarki orðið 2,4 millj. kr., og fyrir fyrirtæki með þrjá starfsmenn að hámarki 7,2 millj. kr.

Áður en ég kem að sérstöðu þeirra sem gefa tekjur sínar upp fyrst með skattframtali þá ætla ég að nefna að hafi starfsemi hafist fyrir 1. apríl en tekjur verið takmarkaðar á fyrra ári þá hefur frumvarpið svör við slíkum aðstæðum. En hér kemur upp dálítið sérstakt álitamál, þ.e. að þegar við horfum til tekjufalls upp á 50% þurfum við eitthvert viðmiðunartímabil, eins og ég hef verið að rekja. Margir sem starfa í hlutastarfi við segjum ferðaleiðsögn, það geta líka verið sviðslistir eða annað þess háttar, reikna sér ekki endurgjald í hverjum mánuði eða greiða sér laun, heldur safna tekjum yfir árið og gera síðan árið upp í heild sinni á skattframtali. Þetta getur leitt til þess að erfitt sé að finna viðmiðunartímabil núna á síðustu mánuðum til þess að nota til samanburðar fyrir sömu mánuði á árinu á undan. Í þeim tilvikum kemur frumvarpið til móts við rekstraraðila með þeim hætti að þeir sem höfðu lítinn eða engan rekstrarkostnað á þessu tímabili, frá apríl til október árið 2020, er heimilað að miða rekstrarkostnað við reiknað endurgjald fyrir sama tímabil á árinu 2019. Nú er þetta hugsað þannig að hafi viðkomandi rekstraraðili, einstaklingur, ekki reiknað sér endurgjald í hverjum mánuði á árinu 2019, heldur fyrir það ár líka gefið upp heildartekjur sínar á skattframtali, þá verði það hlutfallað.

Líkt og gildir um lokunarstyrki er lagt til að bæði umsóknar- og ákvörðunarferlið verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin skattinum. Í samskiptum við skattinn á undanförnum dögum hefur komið fram að þar er unnið hörðum höndum, eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi, að því að geta tekið við umsóknum um leið og málið verður afgreitt frá Alþingi. Þá er verið að vísa til þess að allt ætti að geta verið tilbúið innan fárra daga. Ég skal ekki segja hvort það verði fljótlega í næstu viku eða í vikunni þar á eftir, en undirbúningur er hafinn að því að þessi lög taki gildi.

Við höfum ákveðið að leggja það til í þessu frumvarpi að ákvarðanir skattsins sæti kæru til yfirskattanefndar. Að lokum má geta þess að sá stuðningur sem felst í frumvarpinu mun samræmast EES-reglugerð um minni háttar aðstoð.

Virðulegi forseti. Tekjufallsstyrkir eru hluti af viðamiklum ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Með samþykkt frumvarpsins yrði komið verulega til móts við einyrkja og minni rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna farsóttarinnar og hafa af ýmsum ástæðum ekki að fullu eða mögulega ekki að nokkru leyti getað nýtt sér önnur úrræði sem staðið hafa til boða. En það er mjög erfitt að leggja mat á umfang þessa máls, það verður að segjast alveg eins og er. Það er mjög mikilli óvissu háð að hve miklu leyti rekstraraðilar munu nýta sér þetta úrræði til fulls þannig að það geti náð til þriggja starfsmanna allt tímabilið og þannig fari styrkurinn upp í 7,2 milljónir, hver fjöldi fyrirtækjanna verður. En við nefnum, og ég ætla bara að taka það fram að það er aðeins nefnt í dæmaskyni, að kostnaðurinn getur, miðað við ákveðnar forsendur, farið upp í rúma 14 milljarða. Ég ætla samt sem áður að leyfa mér að efast um að það verði niðurstaðan. Það kann að verða niðurstaðan en ég hef ákveðnar efasemdir um að svo mikill fjöldi fyrirtækja muni nýta sér úrræðið með þeim hætti að það séu þrír starfsmenn undir. Ég hygg að það verði mjög algengt að einn eða tveir starfsmenn muni eiga í hlut og að því að því leytinu til eru líkur til þess, að mínu áliti, að heildarfjárhæðin sem er undir í þessu máli verði eitthvað lægri. En þetta er töluvert mikilli óvissu háð og verður að koma í ljós. Ég held að kannski skipti meira máli fyrir okkur í þessu samhengi að halda í vonina um að þetta tímabil verði sem styst. Það er eiginlega aðalatriðið. Vonandi náum við árangri með því að teygja okkur til sem allra flestra, að okkur hafi tekist að stilla skilyrðin þannig að við náum markmiðinu hér.

Mér finnst full ástæða til að nefna það undir lok ræðu minnar að þegar við stóðum hér á vormánuðum og vildum grípa inn í stöðuna sem þá blasti við okkur, lögðum við mun meiri áherslu á að byggja brú yfir tímabil sem við vonuðumst til að yrði sem styst. Flest úrræði okkar báru þess þannig merki að við vonuðumst til þess að þegar kæmi fram á síðsumar eða haust, ég tala nú ekki um inn í veturinn, hefðu ytri aðstæður lagast töluvert. Með þá sýn fyrir augum var eðlilegt að leggja meiri áherslu á sveigjanleika, frest á gjöldum hins opinbera, og að fjármálafyrirtækin veittu afborgunarfrest sömuleiðis. Við opnuðum fyrir lánaúrræði sem voru mjög vel nýtt, við heimiluðum úttöku séreignarsparnaðar fyrir einstaklinga o.s.frv. En á þeim tímapunkti var ekki tímabært að tala fyrir beinum styrkjum í þeim mæli sem við teljum að sé rétt að gera núna og það erum við að gera vegna þess að eðli þessa ástands er að breytast. Eftir því sem ástandið varir lengur, þeim mun meiri þörf er á beinum stuðningi af þeim toga sem hér er verið að mæla fyrir.

Ég ætla þá að lokum að koma að því að þetta frumvarp er liður í þríþættri lotu sem við stöndum í núna. Við, ríkisstjórnin, komum fyrst með lokunarstyrkina sem varða þá sem gert hefur verið að loka starfsemi sinni. Hér erum við með tekjufallsstyrki til að draga úr tjóni þeirra sem orðið hafa fyrir tekjufalli, 50% eða meira á undanförnum mánuðum, og eru í einstaklingsrekstri eða með litlar rekstrareiningar, allt að þrjá starfsmenn. Þriðja málið sem nú er í smíðum er þá mál sem varðar stærri rekstrareiningar sem hafa sömuleiðis orðið fyrir miklum búsifjum vegna kórónuveirufaraldursins og við teljum að þurfi að styðja vegna þess og vegna mánaðanna sem fram undan eru. Það eru ýmis álitamál sem við þurfum að hugsa um. Ég ætla að fá að nefna eitt alveg í blálokin. Það varðar fyrirtæki sem eru kannski með rétt rúmlega þrjá starfsmenn, falla þess vegna ekki beint undir þetta mál, hafa heldur ekki þurft að loka og falla þess vegna ekki inn í lokunarstyrkjafrumvarpið, en við horfum til við smíði á þriðja úrræðinu, sem ég var að rekja. Þeir aðilar sem ég er sérstaklega að hugsa um í þessu sambandi eru þeir sem hafa þurft að sæta ýmiss konar takmörkunum eða íþyngjandi sóttvarnaráðstöfunum sem haft hafa veruleg áhrif á reksturinn. Þeim hefur ekki verið gert að loka og falla þess vegna ekki undir lokunarstyrkina. Þessir aðilar eru með umfangsmeiri rekstur en þann sem við erum að tala um hér, hafa þurft að gera mjög miklar ráðstafanir, t.d. vegna fjöldatakmarkana inni á, segjum veitingastöðum og öðrum slíkum stöðum. Við þurfum að halda áfram að vinna úr hvernig við ætlum að koma til móts við þá.

Þetta ætla ég að nefna og setja sem nesti inn í umræðu nefndarinnar með þessum tveimur málum, ég læt það fylgja. Við horfum til þessara rekstraraðila í smíðum á þriðja úrræðinu, þó að ég vilji ekki útiloka að sú aðferðafræði sem t.d. á við um lokunarstyrkina gæti komið til álita þar. Þeir hafa alla vega fram til þessa, og eru í þessu frumvarpi, algerlega bundnir við þá sem er alfarið gert að loka og gæti verið flókið að taka það upp í því úrræði. En þarna er sannarlega viðkvæmur flötur á þessum málum sem við þurfum að ná utan um, þ.e. afstaða fyrirtækjanna, sem ekki er gert að loka, er mjög veik en þau geta samt sem áður varla haft opið. Þetta eru fyrirtækin sem ég er sérstaklega að vísa til. Þá er ég ekki bara að meina vegna þess að viðskiptavinirnir koma ekki heldur vegna þess að eðli sóttvarnaaðgerðanna takmarkar mjög möguleika þeirra til þess að halda eðlilegum rekstri gangandi. Við hljótum að vilja horfa til þess vanda sömuleiðis.

En með þessu frumvarpi erum við að koma til móts við einyrkja og minni rekstraraðila. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.