151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[15:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að mörgu leyti þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta frumvarp vegna þess að gerðar hafa verið kröfur um að reyna að ná til þeirra sem hafa orðið fyrir gífurlegu tekjufalli vegna Covid. Ég vona að þetta nái til sem flestra. En ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geri sér grein fyrir því hversu margir það verða sem eru fyrir utan og fá ekki hjálp, eins og staðan er í dag, hjá þessum fyrirtækjum og atvinnurekendum. Þarna er t.d. talað um 1 milljón. Við skulum bara hugsa um einstakling sem er með 4.999.999 kr. Síðan er annar með 5.500.001 kr. Hann fær ekkert. Þarna gæti orðið rosalegt krónufall.

Ég spyr: Er ekki hægt að útfæra þetta á einhvern annan hátt þannig að ekki sé alveg skýrt og gífurlegt bil milli þess að sleppa inn í kerfið og sleppa ekki, svo að umfram tekjur, upp í kannski 75% eða eitthvað, skerðist þá bara hlutfallslega? Við áttum okkur á því að ef við tökum bara þessa tölu, hálfa milljón, og helminginn af henni þá erum við ekki að tala um nema 40.000 kr. á mánuði. Það eru í sjálfu sér kannski ekki margir í þessari stöðu, maður veit það ekki. En ég spyr: Er ekki svolítið grimmt að krónufallið sé svona mikið?