151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

fjarskipti.

209. mál
[16:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum eytt töluverðum tíma í að ræða netöryggismál hér á Alþingi og samþykktum fyrir stuttu lög um netöryggi. Það fer ekkert á milli mála að þetta er stórt mál í sjálfu sér og verður æ mikilvægara eftir því sem tíminn líður. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd, sem mun fjalla um þetta ágæta frumvarp, og líka í utanríkismálanefnd og mig langar aðeins að fá ráðherra til að bregðast við einföldum spurningum eða hugleiðingum mínum. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda…“ — Þarna er verið að girða fyrir það, eins og horfir kannski að sumu leyti nú í uppbyggingu 5G-farnetkerfisins, að það verði einn eða fáir sem verði mjög ríkjandi í kerfinu. Hér er verið að fela matið á þessu í hendur Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá er spurningin: Er það rétti farvegurinn? Er það matsaðilinn? Eða á það að vera einhver hópur ráðuneyta eða þjóðaröryggisráð sem metur þetta í raun og veru?

Og áfram er sagt í frumvarpinu:

„Að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu…“ — Það er líka lagt í hendur þessara aðila að meta ákveðna þætti í netöryggismálum. Og þá spyr ég: Er ekki alveg eins rétt að þjóðaröryggisráð komið að því líka? Þetta eru nú ekki flókin atriði.

Mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessu.