151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

fjarskipti.

209. mál
[16:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að netöryggismál eru klárlega þjóðaröryggismál og heyra þar af leiðandi þar undir einnig, þau snúast ekki bara um tækni, en tæknin er kannski stór þáttur. Að mati erlendra fræðimanna og nálgun ráðuneytisins, sem sér sannarlega um tækniuppbygginguna og stýrir þeirri uppbyggingu, þá snúast þau fyrst og fremst um áhættustýringu. Þess vegna er það upplegg okkar að ekki sé ásættanlegt að allir íhlutir miðtaugakerfis samfélags framtíðarinnar, svo maður taki háleitt til orða, séu frá sama framleiðanda og þar af leiðandi við öll algerlega háð þekkingu og þjónustu viðkomandi aðila. Það virðist vera almenn sátt um það í kerfinu að einingar þurfi að vera frá mismunandi framleiðendum og í frumvarpinu er hvatt til samstarfs, sem er nýjung í hinu evrópska regluverki, það sé ekki eingöngu litið á samkeppni heldur einnig samstarf og samvinnu fyrirtækjanna. Það er líka almennt miðað við að sumir hlutar farnetskerfanna séu viðkvæmari en aðrir og þess vegna þurfi að gera mismiklar kröfur til öryggis og trausts og þess vegna koma tvö ráðuneyti að; utanríkisráðuneyti vegna öryggishagsmuna og dómsmálaráðuneytið vegna almannahagsmuna, almannavarna, út af þessum þáttum.

Það geta hins vegar vel verið mismunandi skoðanir á því hvernig skilgreina eigi kröfur til öryggisíhluta og trausts á framleiðendum og í hvaða hlutum farnetskerfa megi nota íhluti sem ekki er borið fullt traust til. Ráðuneytið hefur auðvitað fylgst með þessari tækniþróun og umræðu í nágrannaríkjum okkar með það að markmiði að tryggt sé að hér verði byggt upp farnetskerfi sem við og samstarfsríki okkar getum borið fullt traust til.