151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[16:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Ég tók það ekki fram hér en vistheimilanefnd hefur fjallað um töluvert margar stofnanir. Það var vistheimilið á Breiðavík sem ég nefndi en einnig Heyrnleysingjaskólann, vistheimilið Kumbaravog, skólaheimilið Bjarg, vistheimilið á Silungapolli og í Reykjahlíð, heimavistarskólann á Jaðri, upptökuheimili ríkisins á tveimur ólíkum tímabilum, meðferðarheimilið í Smáratúni og á Torfastöðum, og svo Kópavogshæli sem er þá nýjasta skýrslan. Þau heimili sem ætlað er að ná til hér eru ekki eingöngu heimili sem voru rekin af ríkinu heldur heimili sem voru þá rekin, með leyfi ríkisins, af sveitarfélögum eða einstaklingum. Við teljum okkur hafa nokkuð góða yfirsýn yfir hvaða staðir þetta voru og ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari mjög ítarlega yfir þann lista en þar er um að ræða á annan tug heimila og af þeim sökum vonumst við til að hægt sé að kalla þetta lokauppgjör. En ætlunin er sú að taka til þá aðila sem dvöldust sem börn á heimilum sem ýmist voru rekin af ríki, sveitarfélögum eða með leyfi opinberra aðila. Það kann þá að rúma það sem hv. þingmaður spyr um. Ég skil mætavel áhyggjur hans í þessum efnum, þær eru sambærilegar mínum. Ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari nokkuð ítarlega og nákvæmlega yfir þennan þátt.