bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.
Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og vil segja að það er alltaf erfitt að draga einhverja línu í sandinn, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason hefur farið yfir. Hér er verið að horfa til barna sem voru geymd víða, bæði á einkaheimilum og heimilum reknum af sveitarfélögum og opinberum ríkisheimilum, en með því fororði að sú starfsemi hafi verið með leyfi ríkisins. Það er því spurning hvar á að draga slíka línu. Og af því að hv. þingmaður hvatti mig til að skoða þetta nánar þá held ég að næsta skref í þessu máli sé að nefndin taki þessar spurningar til skoðunar.
Ég er sammála hv. þingmanni, ég held ekki að hér sé um stóran hóp að ræða. Ég vil líka benda á að þau heimili sem ég taldi upp áðan hafa verið rannsökuð með mjög vönduðum hætti og ég vil taka undir með hv. þingmanni, mér hefur fundist vel að þessu verki staðið almennt, bæði hvað varðar þær rannsóknir og skýrslur sem hafa verið gerðar en líka hvað varðar framkvæmd laganna af hálfu hins opinbera. En það hefur einungis verið fjallað um vistun fatlaðra barna á einni opinberri stofnun sem er Kópavogshælið. Hins vegar teljum við okkur hafa nokkuð góða sýn yfir það hvar þau voru vistuð. Ég held að það sé mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki það til skoðunar sem hv. þingmaður hefur sagt. Ef það mál kallar á frekari skoðun þá erum við í forsætisráðuneytinu að sjálfsögðu boðin og búin til samtals við nefndina um það.
Að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðuna, frú forseti, og vona að þetta mál hljóti jákvæðar viðtökur í þinginu.