151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Atvinnuveganefnd hefur verið að fjalla um áhrif Covid á launafólk og atvinnulífið í landinu. Við áttum góðan og upplýsandi fund með lykilfólki á Suðurnesjum í gær. Þar hefur hrun ferðaþjónustunnar haft gífurleg áhrif á allt atvinnulíf, þar er meira en 25% atvinnuleysi sem bitnar hvað harðast á erlendu fólki, ungu fólki og konum. Þessi staða hefur aukið mjög álag á velferðarkerfið og áhyggjur af þeim hópi sem hvað lengst hefur verið atvinnulaus og hefur áhersla verið lögð á að lengja bótaréttinn. Menn hafa áhyggjur af eldra fólki sem misst hefur vinnuna en hætta er á að það eigi erfitt með að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Ég deili þessum áhyggjum enda fullt tilefni til.

Staðan er vissulega mismunandi milli sveitarfélaga og er atvinnuleysi t.d. minna í Grindavík en víða annars staðar. Þrátt fyrir erfiða stöðu er langt í frá að nein uppgjöf sé í fólki. Fólk er í baráttuhug og var ánægjulegt að heyra að þær aðgerðir sem ríkið hefur gripið til hafa skipt miklu máli. Er full ástæða til að vinna með þær áfram og bæta úr þar sem veikir hlekkir eru. Vinnumálastofnun hefur verið að bjóða styrki með fólki inn í fyrirtæki. Við höfum lengt tekjutengda bótatímabilið. Verið er að setja af stað átakið Nám er tækifæri. Gerðir hafa verið samningar um ný störf og einnig má nefna hlutabótaleiðina og greiðslu launa í uppsagnarfresti. Allt þetta skiptir máli eins og stuðningslánin og styrkir til fyrirtækja. Auknir fjármunir hafa verið settir í heilbrigðismál og nýsköpunarverkefni og verið er að vinna af hálfu heimamanna að skipaþjónustu í Njarðvík og hugmyndir eru uppi um laxeldi.

Mikilvægt er að huga að störfum fyrir konur við þessar aðstæður og þar er Isavia stór vinnustaður sem er með í bígerð að fjölga störfum. Allar vísbendingar eru um að þegar ferðaþjónustan fer aftur á flug muni Ísland verða eftirsóknarvert land til að heimsækja. Við þurfum bara að hafa innviðina í lagi og vera tilbúin í þá viðspyrnu sem þarf að vera til staðar þegar allt fer af stað.