151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hreint Ísland er það sem ég ætla að tala um hér í dag. Jú, við stöndum vissulega frammi fyrir mörgum áskorunum í dag vegna heimsfaraldursins, en þegar við verðum orðin hrein af Covid hér á landi verðum við að horfa á þau fjölmörgu tækifæri sem við höfum í okkar hreina landi. Hér höfum við mikla hreina orku og mörg tækifæri til þess að beisla græna og hreina orku til margra góðra verka og þá ekki síst í matvælaframleiðslu.

Okkar sóknarfæri og tækifæri liggja í hreinni orku og hreinum matvælum. Það er einmitt þetta sem allur heimurinn er að leita að í dag; heilnæmustu og hreinustu matvælunum og sem hreinustu orkugjöfum. Hér búum við vel þegar kemur að grænmetisrækt og próteinrækt og öðru slíku á umhverfisvænan hátt og þar eigum við að sækja fram og nýta þessi tækifæri, hugsa fram á veginn og vera bjartsýn. Það eru líka tækifæri í hreinum iðnaði eins og gagnaverum sem eru náttúrlega á þeirri stafrænu öld sem við búum vaxandi iðnaður og hér þarf minni orku og annað slíkt. Þegar við verðum komin með öflugan gagnasæstreng til landsins til viðbótar þá liggja þarna mörg tækifæri.

Ef við nýtum þessi tækifæri þá getum við skapað fjölmörg hálaunastörf og góð störf, fjölbreytt atvinnulíf sem mun standa undir því velferðarsamfélagi og þeim lífsgæðum sem við viljum hafa á Íslandi.