151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

umræða um stjórnskipuleg álitaefni um viðbrögð við Covid.

[15:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það má ræða við heilbrigðisráðherra, við þingmenn gerum það þá bara, en það eru fleiri leiðir heldur en að vera með sérstaka umræðu. Sérstök umræða er mjög takmörkuð auðlind. Það er ekki fastur punktur. En það er verið að kalla eftir því að það sé fastur punktur í tilveru þingsins, í þingsal, á þingfundi, þar sem rætt er við heilbrigðisráðherra um stöðuna o.s.frv. Þríeykið, í grein fyrir helgi sem heitir „Vogarskálar veirunnar og lýðheilsa“, talar um að þessi upplýsta umræða sé svo mikilvæg. Við megum ekki þagga niður gagnrýnisraddirnar.

Það má segja að upplýst umræða sé grundvöllur bæði fyrir farsælum sóttvarnaaðgerðum og fyrir verndun borgararéttinda og annarra mannréttinda sem verið er að víkja til hliðar. Ég kalla eftir því og styð þetta ákall um að forseti, sem hefur vald til þess að setja bara þetta tempó, tali við heilbrigðisráðherra, hvort það verði ekki bara vikulega eða hálfsmánaðarlega í þinginu sem heilbrigðisráðherra kemur (Forseti hringir.) og svarar spurningum okkar þingmanna. Umræðan hefur verið gríðarlega málefnaleg og ég óska eftir að hún sé það áfram. En að heilbrigðisráðherra komi (Forseti hringir.) og við setjum þetta tempó.