151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

umræða um stjórnskipuleg álitaefni um viðbrögð við Covid.

[15:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta kærlega fyrir þessi viðbrögð. En ég vil engu að síður minna á, eins og ég gat um áðan, að það er heil meðganga liðin síðan Covid kom upp og við höfum fengið eina umræðu. Það er þakkarvert að hún var lengd, en það var ein umræða hér í þinginu. Umræða er það sem við erum að kalla eftir í mestri vinsemd. Ég tek undir það sem sagt hefur verið, að við eigum að hafa hér dýnamískt samtal, við eigum að hafa það heilbrigt og það eru hagsmunir allra að samfélagið allt komist í gegnum þessa erfiðu tíma. En það sem við viljum ekki að komi í ljós þegar við lítum til baka í sögunni er að við höfum ekki staðist kröfur um gegnsæi, að við höfum ekki staðist kröfuna um lýðræði á svona tímum. Það var mjög eðlilegt framan af að þingið reyndi að gera allt til þess að sýna sveigjanleika, liðleika til að vera með fyrstu viðbrögðin rétt. En núna þegar þetta er liðið verðum við að gæta þess að vera með fasta, reglubundna upplýsingagjöf í þinginu. Það er öllum til hagsbóta, bæði framkvæmdarvaldinu en ekki síður löggjafarvaldinu, þessu elsta þingi í heimi.