151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir um frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu. Frumvarpið er að eðli til svokallað lyklafrumvarp og er nú lagt fram á yfirstandandi þingi en hefur áður tvívegis verið lagt fram. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna. þ.e. hlutaðeigandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef örvænt er um að önnur úrræði dugi. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í að dreifa áhættu í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántakenda. Með frumvarpinu er leitast við að reisa vörn í þágu heimilanna.

Herra forseti. Flutningsmenn frumvarpsins eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson, allt þingmenn Miðflokksins.

Frumvörp sem stefna að sama markmiði og frumvarp þetta hafa verið lögð fram a.m.k. sjö sinnum áður, það síðasta af minni hálfu á 150. löggjafarþingi og þar áður á því 149. Frumvarpið er nú endurflutt lítillega breytt, m.a. í ljósi ábendinga í umsögnum á fyrri árum. Það er upphaflega komið til að frumkvæði Hagsmunasamtaka heimilanna og er reist á sömu rökum og færð voru fyrir hinum fyrri frumvörpum sem ég hef lagt fram á síðustu tveimur þingum, en aftur á móti er farin nýstárleg leið við útfærslu þess með hliðsjón af nýlegri lagaþróun.

Herra forseti. Með frumvarpinu er gerð tillaga um hófsamlega breytingu sem getur þó haft mikla þýðingu fyrir neytendur í greiðsluerfiðleikum sem leiða til þess að þeir missa húsnæði sitt á nauðungarsölu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagsmunasamtökum heimilanna eru mál sem varða eftirstöðvar fasteignalána í kjölfar nauðungarsölu meðal þeirra algengustu sem rata inn til samtakanna og eru jafnvel dæmi um, samkvæmt upplýsingum þeirra, að neytendur séu enn krafðir um meintar eftirstöðvar þótt þær hafi fengist að fullu greiddar við nauðungarsölu. Þar sem nú er gerð sú krafa, í 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, að bjóða verði önnur úrræði áður en krafist er nauðungarsölu er líklegt að allt annað sé fullreynt áður en til þess kemur og verður að miða við að þá þegar liggi fyrir það mat lánveitanda að neytandi hafi ekki fyrirsjáanlega greiðslugetu til að standa undir þeim skuldbindingum sem á húsnæði hans hvíla. Í slíkum tilvikum er jafnan óhætt að álykta að skilyrði greiðsluaðlögunar séu sjálfkrafa uppfyllt hvað varðar niðurfellingu veðskulda umfram verðmæti fasteignar, sem er það sem þetta mál snýst um. Er það því til þess fallið að stuðla að skilvirkari úrlausn mála að eftirstandandi veðskuldir vegna fasteignalána skuli falla niður í kjölfar nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign neytanda, auk þess sem það myndi deila áhættu af lántöku á sanngjarnan hátt milli lántaka og lánveitanda.

Herra forseti. Nokkur orð um markmið þessa frumvarps, en það er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, eins og það heitir, þ.e. hlutaðeigandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka. Það er einnig markmið frumvarpsins að stuðla að skilvirkri innleiðingu og framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17 frá 4. febrúar 2014 um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði o.fl. Alþingi samþykkti, með þingsályktun 18. nóvember 2019, að stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn, yrði aflétt. Efnisákvæði tilskipunarinnar hafa að mestu leyti verið lögfest hér á landi með lögum um fasteignalán til neytenda, sem ég gat um áðan. Með hliðsjón af þeim ábendingum sem hafa borist um framkvæmd laganna er stefnt að því að skerpa enn frekar á lögunum um fasteignalán til neytenda, eins og ég kem hérna að nánar á eftir, með það að markmiði að efla og skýra betur réttindi neytenda á þessu sviði.

Forseti. Nokkur orð til að skýra það úrræði sem hér er beitt til að ná þeim markmiðum sem ég hef lýst: Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði nokkurs konar efndaígildi. Þetta orð á sér latneskt heiti í fræðunum, datio in solutum, þ.e. efndaígildi í fasteignalánum. Það lýsir sér þannig að kröfusambandi kröfuhafa og skuldara lýkur með öðrum hætti en upphaflega var stefnt að með því að kröfuhafi viðurkennir aðra greiðslu sem fullnægjandi. Þannig gerir frumvarp þetta ráð fyrir því að kröfuhafa samkvæmt samningi um fasteignalán, þar sem endurgreiðsla lánsins er tryggð með veði í hinni keyptu fasteign, verði gert að samþykkja að afhending umræddrar eignar í hans hendur teljist fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara sem jafngildi því að skuldbindingin hafi verið efnd að fullu.

Miðað er við það, herra forseti, að á þetta reyni ekki nema í neyð, t.d. þegar greiðslufall hefur orðið af hálfu skuldara og lögbundinn réttur kröfuhafa til að leita fullnustu í kröfum sínum hefur orðið virkur.

Í skýrslu sem út kom á vegum hins alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækis London Economics frá árinu 2012, um úrræði til handa neytendum í fjárhagsörðugleikum, er ítarlega fjallað um efndaígildi á borð við það sem hér um ræðir. Þar kemur fram að sambærileg úrræði hafi lengi þekkst í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og hafi frá fjármálahruni rutt sér til rúms í Evrópu, einkum á Spáni. Jafnframt koma fram, í viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar frá 1. júní 2015, um vanskil og nauðungarsölur, nánari leiðbeiningar um hvernig fara skuli með slík mál. Af þessum evrópsku reglum má ráða að gerðarbeiðandi eigi að gæta fyllsta meðalhófs í slíkum aðgerðum gagnvart neytanda.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að nauðsyn þessarar lagasetningar og þeim kostum sem henni fylgja. Brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánssamningar urðu skuldurum ofviða. Verðlagsáhrif gengisfallsins höfðu sambærilegar afleiðingar fyrir verðtryggða lánssamninga, sem ruku upp úr öllu valdi eins og menn þekkja. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum af hálfu stjórnvalda olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða raunhæf úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig. Að fenginni reynslu úr fjármálahruninu yrði til mikilla bóta að styrkja stöðu skuldara fasteignaveðlána með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum myndi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir til að ástunda vandaðri lánastarfsemi en ella. Þannig er frumvarpið til þess fallið að gera að verkum að hagsmunir lánveitanda og neytanda færu saman umfram það sem nú er með því markmiði annars vegar að neytandi geti staðið undir afborgunum af fasteignaláni sínu og hins vegar að raunverulegt virði fasteignar verði ekki miklum mun minna en virði lánssamningsins heldur sambærilegt. Þannig yrði dregið úr líkum á myndun fasteignabólu í líkingu við þá sem varð á árunum fyrir hrun. Til langs tíma litið leiddi breytt umhverfi að þessu leyti til vandaðri lánastarfsemi, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Enn fremur má vísa til svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti og svars félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn um nauðungarsölur og greiðsluaðlögun þar sem kom fram að á undanförnum tíu árum hefðu a.m.k. 9.195 fasteignir einstaklinga verið seldar nauðungarsölu eða vegna greiðsluaðlögunar. Þessar upplýsingar komu fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hér á Alþingi. Án efa hafa fleiri fjölskyldur misst heimili sín eftir öðrum leiðum sem ekki liggja fyrir um neinar opinberar tölur.

Litlar varnir hafa verið reistar í þágu heimilanna þrátt fyrir þessa reynslu. Til vitnis um það segir í skýrslu dómsmálaráðherra, um framkvæmd sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu, þetta var á 149. löggjafarþingi, að ekki sé gætt sérstaklega að því hvort lánveitandi hafi fullnægt skilyrðum 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda við framkvæmd nauðungarsölu. Með frumvarpinu er ætlunin að gera úrbætur á þessu neytendum til hagsbóta.

Herra forseti. Nokkur orð um hina lagalegu útfærslu á þessu úrræði: Þar er til máls að taka að samkvæmt 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda er lánveitendum skylt að gefa neytendum kost á úrræðum, svo sem endurfjármögnun eða skilmálabreytingu láns, sem gætu leyst úr greiðsluerfiðleikum neytenda, áður en krafist er nauðungarsölu. Þannig er sá vilji löggjafans ljós að skipa nauðungarsölu þann sess að vera úrræði til þrautavara þegar um slík tilvik er að ræða og allar aðrar leiðir reynast ófærar, þar á meðal samningaleiðin. Þegar svo ber undir hlýtur fjárhagur neytanda jafnan að vera bágborinn með tilliti til skuldastöðu og er því málefnalegt að veita úrræði til að leysa neytanda sem svo er ástatt um undan slíkum byrðum, líkt og hefur verið leitast við í seinni tíð, í fyrsta lagi með lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, frá 2010, í öðru lagi með breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., líka frá 2010, og í þriðja lagi með lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, frá 2014.

Í þeim tilvikum þegar allt annað hefur verið fullreynt áður en krafist er nauðungarsölu má jafnan telja óhætt að álykta að skilyrði greiðsluaðlögunar séu sjálfkrafa uppfyllt hvað varðar niðurfellingu veðskulda umfram verðmæti fasteignar. Er það því til þess fallið að auka mjög á skilvirkni úrlausnar mála í slíkum tilvikum að samkvæmt frumvarpinu verði tekin upp sú meginregla að eftirstandandi skuldir vegna fasteignalána falli niður í kjölfar nauðungarsölu á fasteign neytanda. Við þessa útfærslu frumvarpsins hefur verið tekið mið af athugasemdum sem hafa komið fram á fyrri stigum, þar á meðal frá embætti umboðsmanns skuldara með vísan til laga um nauðungarsölu.

Samkvæmt 57. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, getur veðkröfuhafi sem ekki fær kröfum sínum fullnægt við nauðungarsölu ekki krafið skuldara um greiðslu eftirstöðva krafna sinna nema að því leyti sem hann getur sýnt fram á að markaðsvirði eignar á þeim tíma þegar nauðungarsala fór fram hefði ekki nægt til greiðslu þeirra. Þetta getur aðeins átt við í þeim tilvikum þegar söluverð eignar á nauðungarsölu er undir markaðsvirði hennar. Séu veðkröfurnar einnig undir markaðsvirði eignarinnar leiðir ákvæðið til þess að skuldari verður laus allra mála. Þetta gildir óháð tegund kröfu og á jafnt við um alla skuldara, hvort sem þeir eru lögaðilar eða einstaklingar. Séu veðkröfurnar aftur á móti hærri en markaðsverð hinnar veðsettu eignar getur skuldari setið uppi með að skulda enn þann hluta þeirra sem var umfram markaðsverðið og hefur glatað veðtryggingu í eigninni vegna nauðungarsölunnar. Sé um að ræða kröfur sem upphaflega stofnuðust vegna fasteignalána til neytanda myndi meginákvæði frumvarpsins sem hér er mælt fyrir leiða til þess að skuldari yrði þá engu að síður laus allra mála. Frumvarpið nær þó ekki til annarra tegunda krafna, enda er það ekki markmið þess heldur nær það eingöngu til krafna sem hafa stofnast á grundvelli fasteignalána til neytenda.

Verði frumvarpið að lögum gengur það því framar ákvæði 57. gr. nauðungarsölulaga þegar kröfur byggðar á samningi um fasteignalán til neytanda eiga í hlut. Ákvæðið heldur hins vegar gildi sínu gagnvart öðrum kröfum, til að mynda kröfum sem byggjast á samningi um fasteignalán til lögaðila. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að málsgrein bætist við 57. gr. nauðungarsölulaga þessu til skýringar. Til þess að stuðla að skilvirkari framkvæmd 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda eru enn fremur lagðar til ákveðnar breytingar á lögum um nauðungarsölu til að tryggja betur að skilyrði þeirrar greinar séu uppfyllt og vísast þar til 2.–5. gr. frumvarpsins.

Herra forseti. Þegar þessi mál eru uppi er ekki úr vegi að vekja athygli á yfirlýsingu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, frá 6. október sl., þar sem þess er krafist að heimilin verði varin fyrir afleiðingum kórónuveirufaraldursins ekki síður en fyrirtæki. Í yfirlýsingunni segir að enginn, ekki ein einasta fjölskylda, eigi að eiga á hættu að missa heimili sitt af völdum Covid-19. Þau segja heimili landsins ekki vera afgangsstærð heldur meðal hornsteina samfélagsins. Hagsmunasamtökin leggja áherslu á að stjórnvöld dragi lærdóm af skelfilegum afleiðingum bankahrunsins og verji heimili landsins áður en skaðinn er skeður. Þá má bæta því við að það er auðvitað eðlilegt, af hálfu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, að taka þetta upp með þessum hætti þegar við blasir mikill tekjusamdráttur hjá fjölda fólks og atvinnumissir sömuleiðis hjá fjölda fólks.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna segir í sinni ályktun að enda þótt margir hafi orðið atvinnulausir eftir hrunið hafi það ekki verið eini vandi þeirra þúsunda sem misstu heimili sín eftir hrun heldur frekar stökkbreyttar afborganir húsnæðislána, m.a. vegna verðtryggingar. Þetta reyndist þúsundum fjölskyldna ofviða þrátt fyrir að fólk væri í vinnu og yki við sig vinnu í viðleitni til að standa undir lánum.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að þegar liðin séu tólf ár frá því að forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland sé við hæfi að minna á skelfilegar afleiðingar aðgerðaleysis og vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda fyrir heimili landsins. Þau mistök sem gerð voru þá mega aldrei endurtaka sig, segir í yfirlýsingu stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.

Í þessari yfirlýsingu, sem ég hef gert að umræðuefni, segir um aðgerðir vegna veirufársins að stjórn hagsmunasamtakanna krefjist þess að sett verði þak á verðbætur lána heimilanna í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Segja samtökin að sú aðgerð myndi ein og sér hjálpa mörgum heimilum. Samhliða því segja þau að stöðva verði nauðungarsölur á heimilum a.m.k. út næsta ár svo að þau heimili sem verða fyrir hvað mestum tekjumissi fái tækifæri til að vinna sig út úr tímabundnum erfiðleikum í því skjóli sem heimilið er. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess jafnframt að þau, sem eini hlutlausi aðilinn á Íslandi með sérþekkingu á sviði neytendaverndar heimilanna á fjármálamarkaði, fái aðkomu að öllum ákvörðunum stjórnvalda um lausnir fyrir heimilin.

Ég ætla hér að taka undir þessar óskir og kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég get sjálfur borið vitni um það hvílík sérfræðiþekking er þar fyrir hendi á þessu málefnasviði.

Herra forseti. Mér hefur með fyrirspurnum til ráðherra á Alþingi tekist að afla upplýsinga um fjölda þeirra heimila sem tekin voru af fjölskyldum í eftirleik hrunsins, eins og rakið hefur verið hér að framan. Þá sést af svari við fyrirspurn sem ég lagði fram, um vægi húsnæðisliðarins í vísitölunni, að hann hefur á umliðnum árum að segja má reynst hin eiginlega vísitala, þrátt fyrir að vera ákveðin af opinberri skrifstofu úti í bæ án tillits til hagrænna sjónarmiða. Lunginn af verðbótaálagi á lán, miðað við það svar sem fram kom frá hæstv. fjármálaráðherra, verður rakinn til húsnæðisliðarins en ekki til almennra verðbreytinga sem vísitölunni var ætlað að endurspegla.

Ekki er rými hér til að rekja allan þann tillöguflutning sem ég hef leyft mér að hafa uppi hér á Alþingi um varnir í þágu heimilanna. Þó skal getið um frumvarp sem ætlað er að þrengja svo að vísitölunni að hún heyri sögunni til og ég ræði um aðgerðir sem saman mega kallast tangarsókn gegn vísitölunni og felast í afnámi húsnæðisliðar, afnámi áhrifa óbeinna skatta auk annarra aðgerða.

Herra forseti. Ég hef rakið efni, markmið og inntak þess frumvarps sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu. Það er alveg ljóst að heimilunum gæti verið alvarlegur háski búinn í því efnahagsástandi sem myndast hefur vegna hins alþjóðlega veirufaraldurs sem hefur lagst á okkur af miklum þunga. Það er alveg nauðsynlegt, herra forseti, að reistar séu fullnægjandi varnir í þágu heimilanna. Hér er gerð tillaga um hófsama en markvissa aðgerð sem í senn leiðir til þess að jafna á milli aðila áhættunni og hins vegar að stuðla að aukinni ábyrgð og vandaðri meðferð við útlán. Þetta er ekki bara hagsmunamál heimila. Þetta er hagsmunamál samfélagsins alls.