151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég verð að segja við hv. þm. Jón Þór Ólafsson að honum yfirsést nú ýmislegt í þessari sögu sem hann er að rekja hérna. Það eru alvarlegar eyður í þessari söguskýringu. Ég ætla að leyfa mér að benda hv. þingmanni í fyrsta lagi á stærstu eyðuna og það var leiðréttingin. (JÞÓ: Og leiðréttingin gagnaðist hverjum?) Leiðréttingin. (JÞÓ: Ekki þeim sem töpuðu húsunum sínum.) Leiðréttingin. (Gripið fram í.) Leiðréttingin sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beitti sér manna mest fyrir og varð að veruleika í ríkisstjórn sem hann hafði forystu fyrir. (JÞÓ: Og gerði það vel.) Leiðréttingin fól það m.a. í sér, fyrir utan það að hún hafði fjárhagslega þýðingu fyrir fólk, að hún var fallin til þess að bæta fyrir sárasta sviðann hjá mörgum. Hún fól líka í sér mikilvæga viðurkenningu á því að þetta verðtryggingarkerfi hefði gjörsamlega farið úr öllum böndum.

Það er auðvitað mjög ágætt að rifja upp söguna. Ég vil hins vegar segja það líka og vekja athygli hv. þingmanns á því að hv. þingmaður áttar sig auðvitað á að ekki er sjálfgefið að þó að þingmenn leggi fram frumvarp fái þeir að mæla fyrir því. Það er samkomulag á milli stjórnmálaflokka hér á Alþingi um að valin eru úr málum þrjú, fjögur mál sem eru svokölluð áherslumál og Miðflokkurinn valdi þetta mál sem eitt af sínum þremur eða fjórum áherslumálum. (Gripið fram í.)Þess vegna er ég að mæla fyrir því hér í dag, vegna þess að Miðflokkurinn, undir forystu þeirra manna sem hv. þingmaður nefndi, hefur ákveðið það. Ég tel að það sé fullur hugur og ég tel að þetta staðfesti það, og sömuleiðis sagan, og þá vísa ég aftur til leiðréttingarinnar, að það er fullur hugur að baki þessu frumvarpi.