151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[18:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég vil fyrst spyrja hann, ef hann getur aðeins frætt mig um þetta mikla málþóf sem stöðvaði málið veturinn 2012–2013, hvort tölfræðirannsóknir Pírata hafi leitt í ljós að um málþóf hafi verið að ræða sem stöðvað hafi málið. Gögnin um þetta mál eru til á vef Alþingis þar sem ferill málsins er rakinn, m.a. út frá þeim breytingum sem þáverandi meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði á málinu á sínum tíma og hve miklar umræður urðu um hvern part þess ferils alls. Staðan er nú sú, alla vega samkvæmt minni tölfræði, að hið meinta málþóf hafi ekki náð inn á topp tíu yfir málþóf sem átt höfðu sér stað á þinginu á þeim tíma og mörg hafa átt sér stað síðar sem hafa slegið þau met verulega. Þessi mýta, sem menn hafa rakið til þessara ára, er kannski meira mýta en veruleiki sem á sér stoð í tölfræðilegum gögnum. Þetta var nú samt ekki aðalefni mitt heldur vildi ég kannski setja fram aðra spurningu, af því að ég heyri á hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að hann vill annars vegar halda tryggð eða trúnað við tillögur stjórnlagaráðs frá sínum tíma en telur samt að svigrúm sé til breytinga. Ég átta mig ekki á því hvar mörkin liggja í þeim efnum. Er hann fyrst og fremst að hugsa um rammann, en má ekki breyta einstökum greinum? Ég skildi hann þannig að það mætti breyta einstökum greinum en svo sagði hann í hinu orðinu að 10% í tillögum stjórnlagaráðs séu heilög og ekki megi hreyfa við þeim, bara svo að dæmi sé tekið.