151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[18:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt um málþófsspurninguna. Ekki er einfaldlega hægt að mæla málþóf í tíma vegna þess að hversu vel þau virka byggir alltaf á því hversu mikill tími er eftir. Nú er málþóf þess eðlis að alltaf er hægt að karpa um það hvað sé málþóf og hvað séu bara langar umræður. Við höfum átt þau samtöl milljón sinnum og hv. þingmaður er jafn mikill sérfræðingur og ég í því, hann getur svarað þessum spurningum sjálfur, með allri þeirri virðingu sem því fylgir. En ég læt það liggja milli hluta. Ég get bara sæst á það. Það kemur málinu ekki endilega við hvort það hafi verið málþóf eða ekki, ég skal bara að sættast á það og sleppa því að ræða það í framhaldinu ef það kemur okkur áfram í umræðunni.

Hv. þingmaður spyr þessarar góðu spurningar: Hvar liggja mörkin í því hvar megi breyta frumvarpi stjórnlagaráðs og hvar ekki? Stjórnlagaráð skilaði drögum, ekki fullbúnu plaggi. Það var ekki verkefnið að skila fullbúnu plaggi og ég hygg að stjórnlagaráð sjálft hefði viljað gera meira ef það hefði verið markmiðið upprunalega. Það stóð til að breyta málinu eitthvað. Á hvaða hátt, spyr hv. þingmaður. Það er til ágætispróf, stundum kallað Ragnarsprófið, eftir hæstv. lögfræðingi, mjög þekktum, og það felur í sér að ef breyting er til þess fallin að efla réttindi borgaranna, í það minnsta ekki draga úr þeim, þá stenst það það próf. Það að hækka þröskuldinn úr 10% í 15%, um þann fjölda kjósenda sem getur kallað eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mál er að draga úr rétti kjósenda til að hafa áhrif. Að því leyti myndi ég segja: Það er rangt. Við eigum ekki að gera það. Að breyta þeim 10% í 5%, ég man ekki til þess að neinn hafi endilega stungið upp á því, myndi standast prófið vegna þess að það eykur réttindi almennings. Það er í sjálfu sér engin algerlega skýr lína í þessu. En markmiðið er að auka réttindi borgaranna, lýðræðisleg réttindi sem og einstaklingsréttindi, og það er inntakið sem ekki má breytast. Svo eru dæmi úr drögum stjórnlagaráðs sem hefur verið breytt til að bæta réttindi borgaranna eða verja þá betur gegn ofurvaldi ríkisins. Mér endist því miður ekki tími til að fara í það núna en vænti þess að hv. þingmaður hafi annað andsvar.