151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt einhverjar útgáfur af þessu svokallaða Ragnarsprófi, m.a. að ef breytingin er í samræmi við almannahagsmuni sé hún í lagi annars ekki. Ég verð hins vegar að segja að það er og hefur löngum verið grundvallarágreiningur í stjórnmálum um það hvernig eigi að túlka svona hugtök eins og almannahagsmuni eða hvernig réttindi borgaranna eru aukin. Oft eru mjög skiptar skoðanir um það einmitt hvort tilteknar breytingar eru til þess fallnar að bæta réttindi, einkaréttindi eða annað þess háttar. Hvort breytingar eru í almannaþágu eða ekki getur einmitt verið viðfangsefni stjórnmálabaráttunnar. Þó að þetta próf hljómi ágætlega þá er það ónothæft sem mælikvarði. Það getur hver skoðað það með sínum gleraugum þannig að það er ekki neinn sameiginlegur mælikvarði sem menn geta notað til að meta hverju megi breyta og hverju megi ekki breyta.

Ég segi bara sem svo: Ferlið sem var í gangi á kjörtímabilinu 2009–2013 byggði á ákveðnum forsendum. Úr því urðu til einhverjar tillögur sem seinna urðu í breyttri mynd að frumvarpi á Alþingi. Það frumvarp lent úti í skurði, ferlið stöðvaðist. Tillögurnar eru til og menn geta fjallað um þær, lagt þær fram eins og verið er að gera hér í dag og rætt þær á grundvelli þess hvernig við breytum stjórnarskrá í landinu. En við höfum fullt frelsi til að taka hverja tillögu, samþykkja hana eða hafna henni eftir því sem sannfæring okkar býður.