151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:41]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það kann að vera að óvissa kunni að vera um túlkun tiltekinna greina í nýrri stjórnarskrá. Ég skal ekki reyna að draga fjöður yfir það að lögmenn kunna að takast á um það og nýjar hefðir munu eflaust verða til í lagatúlkunum. Ég tel hins vegar að nú þegar ríki óvissa um mjög stór og mikilvæg atriði í okkar stjórnskipan. Ég nefndi sérstaklega eina grein sem varðar forsetann og hans hlutverk. Til allrar hamingju höfum við ekki enn þá fengið forseta sem hafa kosið að beita þeirri grein en við gætum fengið slíka manneskju á forsetastól. Ég tel líka að í íslensku samfélagi sé nú um stundir og hafi verið lengi, alveg frá hruni og alveg frá því fyrir hrun, ekki bara óvissa um ýmsar leikreglur samfélagsins, sem óprúttnir aðilar hafa oft séð sér leik á borði að túlka af mikilli fimi, skulum við segja, heldur líka mikið vantraust meðal almennings. Það er mikil óánægja meðal almennings. Og ég tel að vantraust almennings á æðstu stjórn ríkisins, þar á meðal þeirri stofnun sem hér er og við stöndum fyrir, sé geigvænlegt og ég tel að það að þverskallast við að fara að vilja (Forseti hringir.) þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sé ein af grundvallarástæðum þess mikla vantrausts.