151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður kom víða við í svari sínu ætla ég líka að koma víða við í seinna andsvari mínu. Fyrst vil ég nefna að enginn sérstakur ágreiningur er um það að 30. gr. stjórnarskrárinnar megi víkja. Það er enginn sem vill standa vörð um 30. gr. stjórnarskrárinnar. En það að 30. gr. stjórnarskrárinnar sé asnaleg gefur okkur ekki tilefni til að breyta öllum hinum greinum stjórnarskrárinnar, alls ekki. Það er engin þörf á að endurskrifa allar 80 greinar stjórnarskrárinnar og bæta 35 nýjum við þó að ein grein sé augljóslega úrelt og eigi ekki þar heima. Það er alveg út í hött að álykta sem svo út frá einhverri einni slíkri grein. Og ég get nefnt þrjár, fjórar, fimm aðrar greinar sem ég teldi að væri full ástæða til að endurskoða. Það gefur mér ekki tilefni eða sannfæringu fyrir því að ástæða sé til að breyta öllum hinum, alls ekki. Ég segi því sem svo: Að mínu mati stendur valið ekki milli þess að breyta ekki nokkrum sköpuðum hlut eða breyta öllu. Ég held að það sé alveg hægt að fara milliveg. Ég held að það sé hægt að fara milliveg með því að taka fyrir afmarkaðar breytingar sem hægt er að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um frekar en að ætla að breyta öllu, bæði því sem vel hefur reynst og eins því sem kann að vera úrelt. Ég bara segi sem svo: Ef það þarf að skipta um dekk á bíl þá skiptir maður um dekk, maður skiptir ekkert endilega um bíl.