151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:45]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bendi á ágætar og ítarlegar rannsóknir hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem ég tel ekki ástæðu til að draga í efa enda annálaður nákvæmnismaður. (BÁ: Það stendur 80 sinnum „og“ í stjórnarskránni.) Hann hefur leitt í ljós að það er stórlega ofmælt að um sé að ræða einhvers konar allsherjarumbyltingu á stjórnarskrá. Þvert á móti heldur sér obbinn af greinum hennar. Stjórnarskráin nýja líkist ríkjandi stjórnarskrá miklu meira en menn hafa viljað vera láta.

Hv. þingmaður talar mikið um að skipta um dekk og skipta um bíl. En þetta er dálítið eins og að vera á einhverri druslu þar sem jafnvel er sprungið á öllum dekkjum, þrjú hjól undir bílnum og áfram skröltir hann þó. Og þá er bara að láta hann skrölta út í það óendanlega og gera ekki neitt. Það hafa verið haldnir fundir hér og það hafa verið skipaðar nefndir og það hefur gengið nefnd undir nefndar hönd við að reyna að þoka áfram einhverjum breytingum á stjórnarskránni, norskir sérfræðingar hafa verið kallaðir til, hver öðrum snjallari, en ekkert hefur gerst áratugum saman. Það eru bara þrjú hjól undir bílnum og áfram skröltir hann þó — en hann skröltir bara ekkert áfram.