151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

geðheilbrigðismál.

[10:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. En þrátt fyrir öll þessi svör og allt það sem er verið að gera fellur fólk enn milli skips og bryggju. Það eru göt í kerfinu, börn fá enga hjálp og búa hjá foreldrum með geðræn vandamál. Börn eru enn á biðlistum. Og það sem er kannski skelfilegast er að fólk kvartar undan því að einstaklingar með alvarleg geðræn vandamál nái ekki strax í gegnum síma inn á bráðamóttöku, fái ekki hjálpina, og að hvergi sé tekið á því að ekki sé nein hætta á því að ef einhver þarf á bráðaþjónustu að halda sé honum bara vísað á heimilislækni til að fá tilvísun. Það gengur ekki upp. Það getur ekki á nokkurn hátt gengið upp að vísa fólki frá og segja því að fara til heimilislæknis. Heilsugæslan er ekki opin allan sólarhringinn.