151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

skrá yfir störf hjá sveitarfélögum sem heimild til verkfalls nær ekki til.

206. mál
[11:56]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skrá yfir störf hjá sveitarfélögum sem heimild til verkfalls nær ekki til. Drög að frumvarpinu voru samin í tengslum við gerð kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd alls 17 aðildarfélaga, sem undirritaður var 16. janúar sl. og var samþykktur með atkvæðagreiðslu í kjölfarið. Voru drögin að frumvarpinu sérstakt fylgiskjal með framangreindum kjarasamningi.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði að hvert sveitarfélag skuli birta skrá yfir störf hjá sveitarfélaginu sem heimild til verkfalls, samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nær ekki til. Í þessu sambandi er átt við skrá yfir störf hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi við nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu við íbúa sveitarfélagsins þannig að lífi og heilsu þeirra sé ekki ógnað þrátt fyrir verkföll félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem gera samninga á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá er lagt til að ágreiningur sem ekki er leystur með samkomulagi verði lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr ágreiningi.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að hvert sveitarfélag ljúki við gerð skrár um umrædd störf innan eins mánaðar frá gildistöku laganna. Vert er að geta þess sérstaklega að þær skrár, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að sveitarfélög birti um störf sem heimild til verkfalls á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur nær ekki til, eru sambærilegar þeim skrám sem sveitarfélög birta nú þegar yfir störf sem heimild til verkfalls samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn nær ekki til.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er unnið í góðu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasamband Íslands sem náðu samkomulagi um efni frumvarpsins við samningaborðið fyrr á þessu ári. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.