151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[12:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. flutningsmanni þessa máls fyrir þá góðu yfirferð sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir bauð upp á hér í gær þegar hún flutti málið, þar sem hún fór efnislega yfir stóru drættina í því frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem hér liggur fyrir. Það er eitt orð sem hún notaði sem mig langar aðeins að dvelja við af því að það kallast svo mikið á við starfið sem þetta skjal byggir á. Það er orðið stöðuskjal. Frumvarpið, eins og það er lagt fram í dag, er stöðuskjal, er skjalið eins og það stóð að lokinni meðhöndlun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins á vetrinum 2012–2013. Grundvöllurinn er lagður af stjórnlagaráði, ofan á það hafa síðan verið byggðar breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þess tíma, ábendingar Feneyjanefndarinnar og smærri úrbætur til viðbótar. Nú í vetur þarf að byggja ofan á þetta enn betri útfærslu. Ég nefni þetta vegna þess að stjórnlagaráð vann alltaf með áfangaskjal, mér reiknast til að áfangaskjölin hafi verið um tíu talsins. Það var einn af styrkleikum starfsins í stjórnlagaráði, að texti var lagður fram, hugmynd að nýjum köflum eða greinum, en nefndirnar sem sá málaflokkur heyrði til hikuðu ekki við að taka slíkar greinar aftur til umfjöllunar og jafnvel umbylta þeim eftir umræðu í ráðinu eða umsagnir utan úr bæ. Þetta var hluti af því sem var kallað í stjórnlagaráði ítrunarferli vinnunnar. Að vinna alltaf nýja útgáfu út frá því sem þegar hafði verið gert. Þetta var nýstárleg leið við það verkefni að semja lög, en hún var góð vegna þess að hún var mjög skilvirk, hún skilaði góðu starfi á þeim stutta tíma sem stjórnlagaráði var úthlutaður. Þess vegna er svo viðeigandi að orðið stöðuskjal sé notað um frumvarpið sem við ræðum hér í dag og kallast það á við áfangaskjöl stjórnlagaráðs árið 2011.

Annar styrkleiki stjórnlagaráðs, sem við megum ekki gleyma, er ný nálgun við málamiðlanir. Mikið var lagt upp úr því að ráðsliðar væru sáttir við endanlega útkomu, en ágreiningur um leiðina þangað var oft fyrir opnum tjöldum og svo sættist fólk bara í lok dags. Skýrasta og best skjalfesta dæmið um þetta er ákvæði um þjóðkirkju. Staðan í stjórnlagaráði sumarið 2011 var sú að ekki var skýr meiri hluti fyrir neinni leið varðandi þetta ákvæði og því var gripið til þess ráðs að láta fulltrúa í stjórnlagaráði greiða atkvæði í sínum hópi um fimm útfærslur. Þrjár þeirra voru mismunandi málamiðlanir og tvær voru andstæðu pólarnir, þ.e. óbreytt ákvæði gildandi stjórnarskrár eða ekkert ákvæði um kirkjuskipan yfir höfuð. Þegar fyrstu umferð kosninga um þjóðkirkjuákvæðið var lokið í stjórnlagaráði var enginn afgerandi meiri hluti. Þá voru sjö fulltrúar sem vildu fella ákvæðið algerlega brott, átta fulltrúar sem vildu þá niðurstöðu sem á endanum varð tillaga stjórnlagaráðs, að segja að það mætti kveða á um kirkjuskipan í almennum lögum, og sex fulltrúar sem lögðu til að það yrði bráðabirgðaákvæði um að endurskoða stöðu þjóðkirkjunnar innan ákveðins tíma. Síðan voru sigtaðir frá þeir kostir sem fæst atkvæði fengu og eftir fjórar slíkar umferðir stóð sigurvegari uppi, sem var sú tillaga sem stjórnlagaráð fylkti sér á bak við. Það var tillaga sem átta af 25 settu í 1. sæti en öll 25 studdu þegar upp var staðið. Síðan eins og kunnugt er var þetta ákvæði ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá er ekkert annað að gera en að hlýða því alveg eins og gert var 7. júlí 2011 þegar meiri hluti stjórnlagaráðs sammæltist um sína tillögu.

Mig langar líka að nefna og það er kannski ágætt að rifja upp hvað samfélagið hefur breyst á þó ekki lengri tíma en síðan 2011. Dæmið sem mig langar að taka þar er 6. gr. frumvarpsins sem snýr að jafnræði. Stjórnlagaráði bárust nefnilega umsagnir þar sem hvatt var til þess að bæta við kynvitund sem mismununarbreytu í jafnræðisákvæðið. Sú tillaga var lögð fram af hluta fulltrúa í stjórnlagaráði en hún var felld. Það voru 12 fulltrúar sem sögðu nei, færri já, það voru hjásetur eða fjarvera. Ekki afgerandi, en hún var felld, þannig að þessu var ekki bætt inn í ákvæðið sem mismununarbreyta. Þetta held ég að endurspegli umfram allt hvað umræða um þessi mál var komin miklu skemmra á veg 2011 en hún er 2020. Nú eigum við lög um kynrænt sjálfræði og erum bara komin á allt annan stað þegar kemur að réttindum hinsegin fólks, þannig að ég ímynda mér að ef þessi atkvæðagreiðsla stjórnlagaráðs hefði farið fram í ár hefði kynvitund verið bætt inn með miklum meiri hluta.

Þetta ákvæði er gaman að skoða líka vegna þess að síðan var því breytt dálítið mikið af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og það er eitthvað sem við þurfum að skoða í þingnefndinni núna, hvort hafi verið skref í rétta átt eða ranga. Ég er nefnilega ekki sannfærður. Í stað þess að, eins og stjórnlagaráð lagði til, upptalning væri á þeim helstu mismununarbreytum sem horfa þyrfti til, sem byrja á orðunum: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna…“ og svo eru talin þarna upp ein tíu, tólf atriði, þá breytti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ársins 2013 þessu í: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Enginn skal sæta mismunun. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Þetta er stutt og skorinort, en ég velti því fyrir mér hvort við séum að tapa einhverju með því að telja ekki upp stærstu breyturnar. Svo vekur líka athygli að þarna er snúið frá þessu kynhlutlausa orðalagi sem stjórnlagaráð meðvitað setti inn í þetta ákvæði til að sýna að þetta væru öll við, en þessu er breytt í „allir skulu“ af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þarna var stjórnlagaráð sennilega dálítið á undan sinni samtíð en þetta er eitthvað sem við þurfum að fara að huga að í lagasetningu, að hið málfræðilega karlkyn getur stundum verið útilokandi. Í þessu tilviki held ég að svo sé. Og svo er gott að benda á að í frumvarpinu, eins og það liggur fyrir í dag, er talað um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna, en við erum nýbúin að samþykkja lög um kynrænt sjálfræði þar sem er viðurkennt að kynin séu fleiri en tvö. Á ekki lengri tíma en þetta er samfélagið bara komið á allt annan stað.

Annað sem hefur líka breyst mjög mikið er hvernig samráð er almennt viðhaft af hinu opinbera. Árið 2011 var engin samráðsgátt stjórnvalda. Þá var ekki jafn almennt að fólk væri að senda umsagnir um þingmál. Ráðuneyti boðuðu ekki áform um lagasetningu og kynntu ekki drög að lögum nema einstaka sinnum. Nú er það orðið nánast hluti af stöðluðu ferli. Stjórnlagaráð var hins vegar á sínum tíma í fremstu röð þegar kom að samráði opinberra aðila. Það bárust rúmlega 300 erindi, sem við myndum kannski kalla umsagnir í þinglega ferlinu, sem mörg hver höfðu áhrif á endanlega útkomu og á fjórða þúsund athugasemdir voru gerðar við áfangaskjalið á mismunandi tímum. Það er kannski dálítið erfitt að bera tölur saman á milli ára en á þeim tíma var þetta stjarnfræðilega mikið. Í dag myndum við örugglega gera hlutina með öðrum hætti.

Það sem bíður okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er akkúrat að taka upp þennan þráð, að endurlífga samráð við almenning hvað varðar þetta heildarskjal sem hefur legið niðri frá því að þingið sleppti hendinni af málinu 2012 eða 2013. Hvað sem okkur finnst um allar tilraunirnar sem hafa verið gerðar að breytingu á stjórnarskrá síðan, þá hefur þetta skort, þ.e. þessi almenna aðkoma að verkinu. Og nú myndi ég segja að væri aldeilis tíminn til að ræða við almenning í ljósi þeirrar vakningar sem er augljóslega að eiga sér stað. Þá þarf ekki bara að tala um þær rúmlega 43.000 undirskriftir sem söfnuðust í þágu stjórnarskrárinnar, það er líka hægt að skoða algjöran viðsnúning í skoðanakönnunum, sérstaklega varðandi yngsta hópinn. Hjá MMR sem hefur kannað hug fólks til tillagna stjórnlagaráðs, fór hlutfall þeirra sem eru 18–29 ára, sem telja mjög mikilvægt að klára þetta verk, úr 24% upp í 46% á síðasta ári. Þetta er fólk sem er margt það ungt að það var ekki virkir þátttakendur í samtalinu 2011 en eftir því sem umræðunni hefur fleygt áfram á undanförnum mánuðum þá rennur því greinilega blóðið til skyldunnar. Og þess vegna, og sérstaklega þess vegna, er frábært að okkur gefist tækifæri til þess að endurnýja og endurlífga líka samtal almennings við þetta heildarskjal sem byggir á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs.