151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:46]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Hér er komin spurning um það sem er kannski akkúrat vandamálið, sem ég kom aðeins inn á áðan, varðandi öryggishagsmuni og þjóðaröryggismál á Íslandi. Ef við skoðum nágrannalöndin, hvort sem það er Svíþjóð, Noregur, Bretlandseyjar eða Holland, þá er einmitt passað þar upp á að vernda mikilvægustu innviði landsins.

Eigum við ekki einmitt við það að etja í dag að einstök sveitarfélög eða framkvæmdaáætlanir og kærufrestir og annað hafa seinkað öryggismálum eða komið í veg fyrir öryggi sé tryggt? Við þekkjum flutningskerfi raforku, vegi, flugvelli. Er þetta ekki akkúrat hluti af því hvers vegna við hér á Íslandi erum að karpa um grunninnviði og það að verja þá með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna? Er eðlilegt að einstök sveitarfélög fari gegn heildaröryggishagsmunum samfélags? Á Íslandi eru 69 sveitarfélög, eða hvað þau eru akkúrat mörg á þessum tímapunkti. Er eðlilegt að þau geti farið gegn heildarhagsmunum? Mér finnst það ekki rétt. Mér finnst eðlilegt að hér á landi sé tekið tillit til stærstu einstöku þjóðaröryggishagsmuna, hvort sem þeir tengjast flutningskerfi raforku, vegum eða öðru, bættum vegsamgöngum sem fækkað getað slysum um jafnvel tugi á ári, en sem hefur bara verið lokað á áratugum saman innan einstakra sveitarfélaga. Þetta er eitt af þeim stóru atriðum sem við þurfum að taka til í hjá okkur og sem nágrannaþjóðirnar hafa verið að vinna með í 30–40 ár. Þær voru flestar komnar með þannig löggjöf fyrir mörgum áratugum síðan. Við erum töluvert á eftir í þeim málum.