151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég saknaði þess að fá skýrt svar við þessari spurningu. Ég get alveg ímyndað mér að spurningin varðaði það að miðstöð innanlandsflugs, kennslu- og sjúkraflugs ætti að vera á höfuðborgarsvæðinu, ekkert nauðsynlega þar sem hún er núna og ekkert nauðsynlega í Hvassahrauni, heldur að sjálfsögðu þar sem besta staðsetningin telst vera samkvæmt fjölmörgum sjónarmiðum. Mér finnst t.d. ekkert rosalega mikið öryggisatriði, eða réttara sagt er það kannski vandamál að flugvöllurinn sé rétt hjá miðbænum þegar flugvélarnar koma fljúgandi hérna yfir reglulega. Það er ekki traustvekjandi að Alþingi sé beint undir aðflugsstefnu niður á Reykjavíkurflugvöll. Mér finnst ekkert rosalega þægilegt að hugsa um slíkt.

Öryggislega séð, varðandi þétta byggð nálægt flugvelli, þá kaupi ég það ekki endilega að það sé atriði sem geri það að verkum að það sé nauðsynlegt að hafa flugvöll svona nærri þéttbýli. Það kemur í veg fyrir ýmislegt annað eins og t.d. að byggja spítala nálægt flugvelli. Almennt séð er það mjög mikið öryggisatriði að hafa góðan spítala og það er líka ákveðið öryggisatriði við byggingu spítala að byggja hann hátt en ekki vítt. Það bjargar einfaldlega lífum að hafa háar spítalabyggingar en ekki breiðar og víðar spítalabyggingar. En það má ekki byggja háar byggingar nálægt flugvöllum. Það vinnur hvort gegn öðru. Við erum að tala um þannig fjarlægðir og aðstæður þar sem verið er að fljúga með sjúklinga, að síðasti leggurinn frá flugvelli að sjúkrahúsi spilar minnstan part í öllum ferðatímanum og öllu því sem á við. Það eru ýmis sjónarmið hvað þetta varðar og ég saknaði skýrs svar við spurningunni. (Forseti hringir.) Ef spurningin væri sú sem ég bar fram og svarið við henni væri já, getur þá sveitarfélagið ekki einfaldlega sagt nei?