151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:51]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég hafi reynt að svara þessu áðan. Ég var að benda á að þetta eru hagsmunir sem varða þjóðaröryggismál sem samfélagið allt, löggjafarvaldið, verður að takast á við. Einstök sveitarfélög eiga ekki að ráða för í því sem snýr að grundvallaratriðum. Við verðum að athuga að Landspítalinn er líka almennur spítali, en síðan er sérfræðiþjónustan. Um 10% af starfsemi Landspítalans, það eru þessi erfiðustu verk. Hitt er almennur spítali. Það hefur komið fram á fundum hjá okkur í fjárlaganefnd. Landspítalinn sinnir erfiðustu málunum og því þar sem mest reynir á í læknisþjónustu; fyrirburum, hjartasjúkdómum, heilablóðföllum, höfuðáverkum og þess háttar. Þar er mesta getan til að fást við þetta. (Gripið fram í.)

Ég held síðan að hv. þingmaður verði að kynna sér það sem læknar hafa skrifað og talað um í þessum málum. Auðvitað skiptir þetta ferli öllu máli. Þegar alvarlegt slys verður einhvers staðar úti landi er send af stað flugvél. Hún getur verið komin á flugvöllinn á staðnum þegar viðkomandi sjúklingur kemur þangað. Það er ekki þannig að það sé bara farið á eitthvert sjúkrahús úti á landi og síðan þurfi að huga að því að senda sjúkraflug þangað. Það er ekki alveg svona einfalt.

Það sem mér finnst að hafi brugðist í þessu, og tala þess vegna fyrir þessu máli, er að eftir öll þessi ár, alla þessa áratugi skulum við vera í því ferli sem við erum í núna, að við getum ekki gætt almenningsöryggis samfélagsins og íbúa landsins. Við erum í endalausum þrætum. Og núna eftir tvö ár í aðalskipulagi Reykjavíkur, árið 2022, (Forseti hringir.) er gert ráð fyrir að norður/suðurbrautinni verði lokað. Það eru tvö ár. Það er allt undir og ekki komið neitt heilsteypt um hvað eigi að gera eða hvernig eigi að vinna málið. (Forseti hringir.) Það er þar sem íslensk stjórnsýsla er að bregðast okkur í þessu máli, (Forseti hringir.) hvort sem er á sveitarstjórnarstiginu eða hjá löggjafarvaldinu, framkvæmdarvaldinu.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)