151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:13]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, sem talaði hér á undan mér, að nauðsynlegt er að skoða þetta út frá því sem við erum að upplifa þessa dagana, með jarðskjálftavirkni og það sem verið er að fræða okkur um í fréttum og þáttum í sjónvarpi, um eldvirkni á síðustu 1000 árum og um sögu eldvirkni á flekaskilum á sunnanverðu Reykjanesi, þar sem töluverð eldvirkni var fyrir einhverjum 800 árum. Þetta er sjálfsagt eitt af því sem þarf að taka miklu betur fyrir á næstu misserum.

Ég ætlaði líka að minnast á græn orkuskipti í flugi. Það eru stórmerkilegir hlutir að gerast með töluverðum skriðþunga núna sem snúa að því. Það gæti hreinlega breytt miklu, fyrir hlutverk flugs í almenningssamgöngum á Íslandi í framtíðinni, að hafa vel staðsettan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Það er farið að nýta raforku, rafmagnsflugvélar, og síðan mögulega vetni og ýmsa græna orku. Þetta er í pípunum og er verið að vinna mikið að þessum nýju orkukostum. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi svokallaðar leigubílaflugvélar, ef við ættum að þýða það orð yfir á íslensku, sem eru þá kannski notaðar á styttri leiðum, og gætu kannski dugað á Snæfellsnesið, í Borgarfjörðinn og aðeins inn á Suðurlandið.

Við höfum líka verið að sjá miklar breytingar á tækninni á síðustu örfáum árum þar sem búið er að hanna kerfi, rafmagn á batteríum, í 18 til 19 sæta vélar sem gætu flogið loftlínu upp á 250–400 km í innanlandsflugi. Samkvæmt því nýjasta sem heyrist frá Noregi og Svíþjóð er reiknað með að stefnt verði að því að eftir tíu ár verði allt innanlandsflug í þessum löndum knúið grænni orku, hvort sem það yrðu þá rafmagnsflugvélar eða aðrir grænir orkukostir, vetni eða annað. 250–400 km eru einmitt vegalengdin í íslensku innanlandsflugi í dag. Loftlínan á milli Akureyrar og Reykjavíkur er 250 km og loftlínan á milli Akureyrar og Egilsstaða er tæplega 400 km, svo að dæmi séu tekin. Það eru að sjást tölur um að orkusparnaður í Svíþjóð geti orðið um 70% á sætið á floginn kílómetra. Á Íslandi yrði það meira þar sem orkan er ódýrari á Íslandi en í Svíþjóð. Það er líka að koma í ljós 50% sparnaður í viðhaldi í samanburði við þær vélar sem eru að fljúga innan lands í dag. Sparnaðurinn snýr bæði að orkunni og einnig að viðhaldi vélanna þannig að hægt væri að lækka verðlagningu í innanlandsflugi umtalsvert með þessari tækni.

Í andsvörum hér áðan náði ég aðeins að fara í gegnum þann samning sem skrifað var undir í nóvember í fyrra og var að beina athygli að því, sem mér finnst alvarlegt, að frá því að það samkomulag var gert fyrir tæpu ári er ekki að sjá neina vinnu í borgarstjórn Reykjavíkur í þá veru að festa flugvöllinn í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á meðan verið er að fara í gegnum alla þessa kosti sem eru í gangi. Síðan vitum við að ef einhver niðurstaða fengist um Hvassahraunið þá er það 15–20 ára ferli. Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni getur ekki verið í þeirri stöðu að vera utan aðalskipulags í miðri borginni í 10 til 20 ár. Það er óvissuferð sem ég hef engan áhuga á og ég efast um að margir hér í þessum sal hafi áhuga á að farið verði í slíkt óvissuferðalag, að völlurinn hafi raunverulega enga stöðu í skipulagsmálum borgarinnar meðan það ferli fer í gang. Það er það sem ég er m.a. að kalla eftir hér í umræðunni og er mikilvægt að komi fram.

Ég ætlaði síðan að reyna að koma inn á íbúakosningarnar 2001. — Herra forseti. Á ég eina ræðu inni eða eru þær bara tvær? — Það verður þá bara að (Forseti hringir.) gerast á öðrum vettvangi þar sem ég hélt að ég ætti fimm mínútur í það. En ég er búinn að lesa yfir fundargerðir borgarráðs frá byrjun og kosningarnar í Reykjavík eru áhugaverðar. Þær leikreglur sem voru settar upp þar voru ekki virtar og ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram í umræðunni í framhaldinu.