151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmann afsökunar á því að hafa neitað honum um orðið áðan, en að sjálfsögðu á hann kost á að taka þátt í þriðja sinni sem flutningsmaður tillögunnar.)

Takk, herra forseti. Þá er búið að taka af mér 20 sekúndur.

(Forseti (ÞorS): Forseti mun hafa augu á því.)

Fyrst hv. þingmaður kemur inn á íbúakosningarnar 2001 er ágætt að lesa upp úr fundargerðum. Það eru til nokkrar fundargerðir úr borgarráði frá fyrri hluta 2001 um þetta mál. Ég ætla rétt að hlaupa í gegnum það. Í fundargerð segir:

„Lagt fram bréf stjórnar stýrihóps vegna undirbúnings atkvæðagreiðslu um framtíð Vatnsmýrar og staðsetningar Reykjavíkurflugvallar ásamt tillögu að svohljóðandi spurningum á atkvæðaseðli: Vilt þú að flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir árið 2016 eða vilt þú að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri eftir árið 2016? Svarkostir: I. Flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir árið 2016 II. Flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri eftir árið 2016.“

Var þetta samþykkt með fjórum atkvæðum í borgarráði Reykjavíkur.

Í næsta lið kemur fram á þessum borgarráðsfundi, í febrúar 2001:

„Borgarráð samþykkir, með tilvísun til 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga og 19. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, að niðurstaða atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar 17. mars nk. verði bindandi, ef a.m.k. 3/4 hlutar atkvæðisbærra manna taka þátt í henni. Jafnframt samþykkir borgarráð að niðurstaðan verði bindandi, ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiða atkvæði á sama veg jafnvel þótt þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði undir því marki sem ákveðið er í 19. gr. Greinargerð fylgir tillögunni.“

Þá segir í 39. lið þessarar fundargerðar:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: Í tilefni af afgreiðslu meirihluta borgarráðs vegna atkvæðagreiðslu um framtíð flugvallar í Vatnsmýri leggjum við áherslu á eftirfarandi: Bindandi ákvörðun um flugvöll í Vatnsmýrinni til 2016 hefur þegar verið tekin. Sú ákvörðun var tekin með samþykkt R-listans árið 1997 á aðalskipulagi og deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar árið 1999. Borgarstjóri og R-listinn bera því fulla ábyrgð á þessari bindandi ákvörðun sem gildir til næstu fimmtán ára héðan í frá. Svokölluð atkvæðagreiðsla, sem er í raun ekkert annað en viðhorfskönnun, var ákveðin skömmu eftir að borgarstjóri skrifaði undir framkvæmdaleyfi vegna endurbyggingar flugvallarins. Atkvæðagreiðslunni virðist ætlað það eitt að slá ryki í augu borgarbúa og draga athyglina frá ábyrgð R-listans á málinu. Fyrirhuguð könnun mun ekki binda hendur þeirra sem stýra borginni árið 2016. Viðhorfskönnun þessi, sem kostar skattgreiðendur í Reykjavík tæpar 30 milljónir kr., mun engu breyta um þær skipulagsákvarðanir sem liggja fyrir og þjónar aðeins þeim tilgangi að gefa R-listanum falskt yfirbragð um lýðræðisleg vinnubrögð. Vatnsmýrin er mikilvægt byggingarland fyrir Reykvíkinga og þróun borgarinnar. Ákvörðun um framtíð flugvallarins og nýtingu Vatnsmýrarinnar verður ekki tekin með óvandaðri viðhorfskönnun. Það er ljóst að allar aðstæður í byggða- og samgöngumálum munu taka miklum breytingum á næstu 15 árum. Sú þróun skiptir miklu fyrir framtíðarákvarðanir í þessum málum. Borgarstjórn á að taka ábyrga ákvörðun um framtíð flugvallarins að lokinni vandaðri undirbúningsvinnu í samvinnu við Reykvíkinga og samgönguyfirvöld, en ekki með þeim hætti sem nú er gert. Þessi viðhorfskönnun ber vott um lýðskrum, eins og að málum hefur verið staðið, og engar líkur eru á að niðurstaða hennar hafi nokkur áhrif á framtíð flugvallarins. Einstakir borgarfulltrúar R-listans láta í veðri vaka að niðurstöður þessarar könnunar muni hafa áhrif á þá endurbyggingu vallarins sem nú stendur yfir og jafnframt er því haldið fram að ef skýr vilji standi til þess að völlurinn fari þá muni það gerast á næstu árum. Það er rangt. Slíkt gerist ekki með einhliða ákvörðun borgarstjórnar. Ruglingslegur og misvísandi málflutningur R-listans hefur gert þessa fyrirhuguðu könnun að algjörum skrípaleik. Mörgum kostum hefur verið teflt fram, sem velja átti um, en nú er ákveðið að kjósa eigi um „að fara eða vera“. Vinnubrögð R-listans í þessu máli eru með eindæmum.“

Það sem ég er að segja og kemur fram í fundargerðum borgarráðs á þessum tíma er að ekki hefur verið farið eftir þeim leikreglum sem voru lagðar fram. Eftir kosninguna þá stóðust aldrei þessar tölur á bak við kosninguna. Leikreglum var breytt. Og síðan, í sögufölsuninni sem hefur verið uppi, er vitnað í þessa íbúakosningu á röngum forsendum. Það er mergur máls og það er mikilvægt að því sé haldið til haga, sérstaklega af öflum sem tala alltaf um lýðræðið, íbúalýðræði. Það átti að vera 75% þátttakenda, það var hlutfallið. Það voru 37% sem tóku þátt.