151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi. Ég er einn flutningsmanna þessarar tillögu sem er þess efnis að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem geri aðgerðaáætlun um að bæta aðgengi einstaklinga í fíknivanda að meðferðarúrræðum sem eru í boði á sjúkrahúsinu Vogi. Áætlunin verði gerð í nánu samstarfi við hagsmunaaðila. Með þessarar tillögu er lagt fyrir ráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvað þyrfti til að geta sinnt með fullnægjandi hætti meðferðarúrræðunum. Markmiðið er að stytta biðlistana og auka aðgengi og þjónustu við einstaklinga í fíknivanda.

Tímamörkin á þessari tillögu eru á vorþingi 2022. Ég veit ekki hvort það þurfi svona langan tíma. Ég hefði viljað hafa þetta fyrr, mér liggur alltaf svo mikið á. Ég veit ekki hvort þetta er svo stórt mál að það þurfi að athuga það í eitt og hálft ár. Ég hefði frekar viljað hafa tímamörkin ári fyrr, þ.e. 2021. Ég beini því til þeirra í nefndinni þegar þau taka þetta mál til meðferðar.

Herra forseti. Vogur er sérhæfð stofnun sem hefur séð um afeitrun fíkla og meðferð undanfarna áratugi með góðum árangri og byggir á víðtækri reynslu og þekkingu á þessum sjúkdómi. Þar hefur verið veitt sérhæfð meðferð við sjúkdómum af þessu tagi sem byggist á læknisfræðilegum greiningum, afeitrun með fagfólki, lyfjameðferð og einstaklingshæfðri sálfræðimeðferð, svo fátt eitt sé nefnt.

Hér hefur einnig komið fram hjá flutningsmanni að fyrr á þessu ári hafi 630 einstaklingar verið á biðlista eftir innlögn á Vog. Hefur biðlistinn haldist nokkuð stöðugur, með svipuðum fjölda eða um 500 einstaklinga, a.m.k. síðastliðin sex ár. Að vísu er biðtíminn stuttur fyrir þá sem leita sér meðferðar í fyrsta skipti og enginn þegar um er að ræða unglinga. Það eru því einstaklingar á þessum biðlista sem eru ekki að fara í meðferð í fyrsta sinn.

Sem merki um umfang starfseminnar þá voru yfir 2.300 innlagnir á Vog hjá rúmlega 1.600 einstaklingum þannig að það er mikið um ítrekaðar innlagnir hjá hluta af þessum hópi. Það er auðvitað bagalegt að meðaltíminn sem einstaklingar með neyslu- og fíknivanda þurfa að bíða eftir innlögn á Vog sé allt frá 20 dögum upp í fjóra mánuði. Mér finnst það ekki ásættanlegt og ekki til hagsbóta fyrir þessa einstaklinga eða samfélagið í heild. Einstaklingar með neyslu- og fíknivanda hafa mikil áhrif á samfélagið og það er því ávinningur okkar í heild að þeim, sem vilja komast í meðferð, verði veitt tækifæri til að komast í hana. Það hefur margsinnis sýnt sig að greitt aðgengi að áfengis- og fíknimeðferð er besta leiðin fyrir einstakling í vanda til að ná tökum á vandanum því fíkn fer ekki í manngreinarálit og heltekur heilu fjölskyldurnar. Þetta er sjúkdómur, á þessum tíma veirufaraldurs, sem smitar heilu fjölskyldurnar, hefur áhrif á fjölskyldulífið og mjög marga í kringum hvern einstakling þannig að þetta er nokkurs konar fjölskyldusjúkdómur og heltekur heilu fjölskyldurnar.

Herra forseti. Sérstaka athygli mína vakti frétt sem birtist bara fyrir nokkrum dögum og hefur í raun farið sáralítið fyrir og litla sem enga umræðu fengið. Þá er ég að tala um frétt þess efnis að heróín sé farið að ryðja sér til rúms hér á landi. Þetta er haft eftir verkefnisstjóra hjá Frú Ragnheiði þar sem langt leiddir fíklar fá aðstoð til skaðaminnkunar. Það er grafalvarlegt ef þetta stórskaðlega fíkniefni fer að ryðja sér til rúms hér á landi en við höfum blessunarlega að langmestu leyti verið laus við heróín hér á landi hingað til þó að efnið hafi verið algengt meðal langt leiddra fíkla í flestum nágrannalöndum okkar. Heróín hefur sérstöðu meðal fíkniefna því að það hefur þau áhrif á þá sem ánetjast því að þeir verða bókstaflega líkamlega háðir efninu. Þá er ekki að spyrja að því sem menn gera til að ná sér í efni. Þeir gera hvað sem er. Þess vegna fylgja þessu hættulega efni margvísleg áhrif sem við höfum kannski ekki séð í miklum mæli hér á landi, þ.e. afbrot og kannski ný tegund afbrota. Ég nefni t.d. að rán eru blessunarlega fá á Íslandi en með tilkomu heróíns, það hefur sýnt sig í öðrum löndum samkvæmt upplýsingum, fylgja rán mjög þeim fíklum sem eru háðir heróíni. Fíknin kallar svo sterkt líkamlega að þeir verða hreinlega að ná sér í efni og það þolir enga bið. Þetta er háalvarleg staða og ég vildi nota tækifærið í ræðu um þetta mál til að koma aðeins að þessu. Margir hafa einmitt óttast að hingað kæmi heróín því að það er vel þekkt í nágrannalöndum okkar. Við höfum margoft, herra forseti, krossað okkur í bak og fyrir að það væri ekki komið hingað. Algengustu fíkniefnin eru þannig að um er að ræða fastar skammtastærðir. Í heróínneyslu eru skammtastærðirnar óræðar sem býður heim hættu á dauðsföllum vegna ofskömmtunar.

Af þessu tilefni hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra, sem verður dreift í dag, þar sem ég óska eftir upplýsingum um tíðni og magn allra heróínefna hér á landi undanfarin tíu ár og það sem af er þessu ári. Einnig hversu mörg mál er um að ræða og hver þeirra megi rekja til haldlagningar á landamærum. Þá er ég að fiska eftir því, herra forseti, hvort verið sé að taka efnið af neytendum eða í innflutningi.

Herra forseti. Á meðan einstaklingar bíða eftir að komast í innlögn á Vog eða aðrar meðferðarstofnanir þá stunda þessir fíklar auðvitað ýmiss konar afbrot, margir hverjir, og koma þá til kasta lögreglu. Lögregla hefur oft afskipti af þeim þótt ekki sé um afbrot að ræða, að sjálfsögðu, vegna þess að lögreglan hefur afskipti af langt leiddum fíklum á margvíslegan hátt, t.d. vegna ölvunar eða ónæðis eða óráðs og jafnvel líka vegna almenns reiðuleysis sem þeir lenda í. Þá eru þessi aðilar oft svokallaðir góðkunningjar lögreglunnar. Það má ekki gleyma því, herra forseti, að þarna er okkar minnstu bræður. Hér erum við að ræða um okkar minnstu bræður í samfélaginu.

Af þessu hlýst mikill samfélagslegur kostnaður og ég held að ef allt væri reiknað og allar þær krónur teknar með í reikninginn sem settar eru í meðferðarúrræði, eins og við erum hér að leggja til, séu þær krónur færri en það sem sparast á móti í samfélaginu. Nefni ég þar fyrst auðvitað að þeir fíklar sem unnt er að hjálpa koma aftur út í samfélagið og verða nýtir þjóðfélagsþegnar, ganga til vinnu og greiða skatta eins og aðrir.

Ég er líklega búinn með allt það sem ég skrifaði nema mér hafi yfirsést eitthvert blað hérna. En ég held að þetta sé góð tillaga og ég legg til að hún fái vandaða meðferð og ég ber þá von í brjósti að hún verði samþykkt hér á þingi. Þetta er gott mál. Þetta er samfélagslega mjög gott mál og heilbrigt og við verðum að hjálpa okkar minnstu bræðrum.