151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

umbætur á lögum um hælisleitendur.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og skorast ekki undan því að svara henni þótt hæstv. dómsmálaráðherra sé hér til svara. Ég ætla ekki að ræða þetta einstaka mál sem hv. þingmaður vísar í, að öðru leyti en því að hluta af þeim langa tíma sem gerður hefur verið að umtalsefni má rekja til þess að þessir einstaklingar komu hingað til lands í öðru lagaumhverfi en var svo samþykkt á Alþingi 2016.

Mér fannst aðalefni fyrirspurnar hv. þingmanns í raun varða lögin og lagaumhverfið og afstöðu mína til þess. Ég hef það um það segja að ég hef sjálf sagt að það sé ekki mannúðlegt að fólk bíði hér of lengi eftir úrlausn sinna mála. Ég vil líka segja að það sem stjórnvöld hafa gert á undanförnum árum hefur verið að stytta þá fresti sem eru í kerfinu, raunar svo að þeir munu verða stystir á Íslandi þegar skoðaður er málsmeðferðartími sem stjórnvöldum er gefinn til að taka afstöðu til beiðna þeirra sem hingað koma í leit að vernd. Mér finnst nauðsynlegt og ég hefði kosið að Alþingi og sú þverpólitíska þingmannanefnd sem starfar á vettvangi dómsmálaráðherra tæki til skoðunar lagaumhverfi sem hér var samþykkt mótatkvæðalaust með fulltrúum allra flokka, stuðningi fulltrúa allra flokka árið 2016, og hvernig okkur finnst það hafa gefist. Því að sjálf er ég þeirrar skoðunar að þær lagabreytingar hafi verið góðar, að þau markmið sem þar eru sett um mannúð og skilvirkni séu góð. En ég lít líka svo á að það sé skylda okkar allra sem samþykktu þetta frumvarp, ég var ein af þeim, að horfa til þess hvernig framkvæmdin hefur gengið eftir. Það er mikilvægt þegar upp koma mál þar sem við teljum að skoða þurfi hvernig framkvæmd laganna og markmið laganna gengur.

Ég vil hins vegar benda á að ég tel að þessi löggjöf hafi verið mikið framfaraspor á sínum tíma og ég hef ekki orðið vör við að komið hafi margar tillögur um breytingar beinlínis á löggjöfinni í tengslum við umræður um einstaklingsmál á undanförnum misserum.