151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

bóluefni gegn Covid-19.

[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eitt almikilvægasta hagsmunamál samfélagsins akkúrat núna að tryggja okkur, íslensku samfélagi, kaup á bóluefni. Við höfum, í samstarfi við Evrópusambandið, í gegnum Svíþjóð, þegar tryggt okkur ákveðinn fjölda af bóluefnisskömmtum hjá tveimur mismunandi fyrirtækjum. Í öðru tilvikinu er um að ræða undirritun og samkomulag við hitt fyrirtækið er í farvatninu. Það er auðvitað allt að því gefnu að bóluefnin verði ekki bara tilbúin heldur örugg og virk. Við höfum ekki svar við neinu af því núna. Þegar við horfum á stöðu faraldursins verðum við að horfast í augu við að við gætum mögulega verið að glíma við faraldurinn langt inn á næsta ár og sérstaklega ef bóluefnið léti bíða eftir sér, væri ekki nægilega tryggt, nægilega öruggt eða nægilega virkt.

Hv. þingmaður spyr um forgangsröðun. Það er á hendi sóttvarnalæknis að annast bæði forgangsröðun og skipulagningu bólusetningar. Væntanlega yrði farin sama eða svipuð leið og við höfum að jafnaði farið við skipulag og forgangsröðun í bólusetningu við inflúensu þegar litið er svo á að tilteknir hópar, þ.e. viðkvæmustu hópar samfélagsins, þeir sem búa við undirliggjandi sjúkdóma eða háan aldur, séu í forgangi, sem og framlínustéttir, og þá fyrst og fremst heilbrigðisstarfsfólk. Ég geri ráð fyrir að það yrði með svipuðum hætti í þessu tilviki og mér finnst einboðið að bólusetning gegn Covid-19 væri án endurgjalds.