151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[15:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir að verða við beiðni minni um að taka sérstaka umræðu um þetta mikilvæga mál. Covid gerir stöðu sveitarfélaga klárlega snúnari en áður og þau þurfa að færa fórnir, fórnir eins og ríkissjóður, fórnir eins og allir aðrir. En þau hafa takmarkaðra svigrúm til að draga úr útgjöldum sínum eða auka tekjur. Svo að ég vísi hér í upphafi í orð hæstv. fjármálaráðherra í umræðu um svipað mál undir öðrum dagskrárlið fyrir nokkrum dögum er veik viðspyrna sveitarfélaganna ekki gott innlegg í þá efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin er að keyra núna.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lengi haft efasemdir um að efnahagur sveitarfélaganna sé sjálfbær. Svæðisbundin samtök hafa líka bent á að fari fram sem horfir vegna Covid verði rekstur sveitarfélaga ósjálfbær í langan tíma, líka þeirra sveitarfélaga sem hafa staðið vel. Samtökin segja að þetta verði ekki leyst nema með miklum lántökum og/eða niðurskurði þjónustu. Þetta á ekki við um öll sveitarfélögin en með hærri útgjöldum og tekjufalli stefnir í vanda hjá ansi mörgum, of mörgum. Launakostnaður vegur þungt hjá sveitarfélögunum, hlutfallslega tvöfalt á við ríkissjóð. Þar fer langmest í félagsþjónustu og skólamál, lögbundna þjónustu sem hefur vaxið statt og stöðugt samhliða auknum kröfum. Þetta er ekki kostnaður sem sveitarfélögin hafa svigrúm til að skera niður. Þetta er ekki kostnaður sem við viljum endilega skera niður. Í raun má segja að nokkur sveitarfélög sjái fram á mikið viðbótarálag í tilteknum málaflokkum einmitt vegna Covid. Ég nefni sem dæmi að félagslegur veruleiki í Reykjavík og í Reykjanesbæ er að breytast hratt til hins verra hjá of mörgum íbúum.

Spurningin er: Hvar eiga sveitarfélög að skera niður og hvernig eiga þau að halda órofinni þjónustu fyrir fatlað fólk, eldri borgara og skólabörn? Hver og hvernig á að forgangsraða ef þörf krefur? Þetta eru áleitnar áskoranir og við berum auðvitað ábyrgð á því, kjörnir fulltrúar, hvort heldur er hér á þingi eða í einstökum sveitarfélögum, að nálgast þær með hagsmuni íbúa sveitarfélaganna og með hagsmuni almennings að leiðarljósi, ekki stjórnarmynstur einstakra sveitarfélaga og ríkisstjórnar.

Herra forseti. Niðurskurður í fjárfestingu sveitarfélaga er til þess fallinn að vinna gegn örvunaraðgerðum ríkissjóðs og bæði lengja og dýpka kreppuna sem við göngum í gegnum. Fjárfestingargat sveitarfélaganna hefur verið stórt frá bankahruni og það mun stækka þegar þau neyðast til að lækka fjárfestingarhlutfall sitt út árið 2025 líkt og lagt er upp með í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Fjárfestingarþörfin getur orðið 100 milljarðar á þeim tíma. Það er ekki að ástæðulausu sem bent hefur verið á að stuðningur upp á tæpa 5 milljarða á grundvelli viljayfirlýsingar ríkisstjórnar um fjárhagslega viðspyrnu sveitarfélaga dugi skammt. Viðreisn hefur verið tíðrætt um stór skref, að núna sé rétti tíminn fyrir ríkisstjórnina að vera stórstíg. Það er ekki úr lausu lofti gripið. Hagfræðingar víðs vegar um heim eru sammála um að í samdrætti þurfi að spýta í í opinberri fjárfestingu. Það er ekki vænlegt til árangurs að skilja sveitarfélögin, þriðjung opinbers rekstrar, eftir í óvissu um fjármögnun.

Þess vegna spyr ég hvort ráðherra sé sammála því að mikilvægt sé að bregðast við til að tryggja að mikilvægar aðgerðir komist til framkvæmda sem fyrst þegar mest þörf er á að örva atvinnulífið? Það er líka mikilvægt í þessum aðstæðum að missa ekki sjónar á brýnum verkefnum náinnar framtíðar. Hvernig eiga sveitarfélög að viðhalda fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum og innleiðingu lausna til rafrænnar framtíðar? Hvernig eiga sveitarfélögin að viðhalda fjárfestingu í grænum lausnum og annarri umhverfis- og loftslagsvernd? Í viðtali sem birtist í morgun og ég las talaði hæstv. ráðherra um útsvarstekjur sveitarfélaga, að þær hefðu aukist það sem af er ári. Það er jákvætt en það er ekki varanlegt vegna þess að þetta er vissulega að stórum hluta vegna hlutabótaleiðar stjórnvalda og vegna fyrirframtekins séreignarsparnaðar almennings.

Það er staðreynd að sveitarfélögin geta gegnt lykilhlutverki í viðspyrnunni ef vel er haldið á spilunum. Þess vegna spyr ég hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að bregðast við ákalli um ódýrari lánveitingar til sveitarfélaga, að bregðast við fjármagnsþörf þeirra með því að vinna að því að tryggja þeim lán á sömu kjörum og ríkissjóður nýtur.

Herra forseti. Ég hlakka til að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hér á eftir sem og annarra þingmanna.