151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Ég ætla líka að þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að hún sé mjög brýn og við mættum gjarnan ræða málefni sveitarfélaganna oftar því að þau sinna grunnþjónustu sem skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli. Ég ætla líka að fagna því að hæstv. ráðherra hafi talað um að starfshópurinn ætti að koma aftur saman. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fylgjumst stöðugt með sveitarfélögunum í því árferði sem við horfum nú fram á. Ég ætla að vera ósammála orðum hæstv. ráðherra um að sum sveitarfélög gætu nýtt skattstofna sína betur. Það heitir með öðrum orðum að hækka álögur á íbúa og ég leggst gegn því. Ef sveitarfélög komast upp með það þá eiga þau ekki í þessu árferði að hækka álögur á íbúa, ekki frekar en við erum að gera hjá ríkinu. Við erum einmitt að lækka skatta.

Ég held að brýnt sé að við ræðum jöfnunarsjóðinn, það flækjustig sem jöfnunarsjóðurinn er og kannski það að við skiljum hann fæst. Það er stundum brandari meðal sveitarstjórnarfólks að þeir séu kannski tveir á landinu sem skilja raunverulega Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er auðvitað óásættanlegt fyrir sveitarfélögin að sitja enn uppi með reikning varðandi yfirfærslu málefna fatlaðra. Við þurfum að ná niðurstöðu í það að raunverulega sé greitt með þeim málaflokki eftir að hann var fluttur yfir til sveitarfélaganna.

Mig langar að segja að það er ánægjulegt að sjá hve mörg sveitarfélög hafa verið vel rekin á síðustu árum og hafa nýtt góðæri í að greiða niður skuldir og lækka skuldahlutfall. Þar af leiðandi hafa þau sveitarfélög nú töluvert rými til þess að taka lán þegar illa árar til að halda uppi þeirri mikilvægu þjónustu og fjárfestingum sem sveitarfélögin þurfa vissulega að gera. En mig langar, ef ég horfi sérstaklega á höfuðborgarsvæðið, að beina því til hæstv. ráðherra að horfa sérstaklega til byggðasamlaganna og þá vil ég nefna Strætó bs. í því samhengi. (Forseti hringir.) Strætó bs. hefur augljóslega orðið fyrir miklum tekjusamdrætti vegna Covid og mér finnst ástæða til að við í þessum sal horfum til þess.