151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Í umsögnum sveitarfélaga og Samtökum sveitarfélaga til fjárlaganefndar um fjárlög og fjármálaáætlun kemur mjög skýrt fram hvert vandamál sveitarfélaga á Íslandi er. Undanfarin ár og áratugir segja sömu sögu, tekjustofnar sveitarfélaganna eru ósjálfbærir nema kannski í góðæri. Þegar kreppir að duga tekjur ekki fyrir lögbundnum verkefnum, sérstaklega ekki í því ástandi eins og er núna. Afleiðingin er ákveðið ölmusuamband ríkis og sveitarfélaga þar sem ríkið er með öll tromp á hendi, er meira að segja með tromp úr öðrum spilabunkum á hendi sem ríkisstjórnin spilar út til að reyna að lögþvinga sameiningar sveitarfélaga. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim aðilum á Íslandi sem sinna nærþjónustu og íbúalýðræði.

Stefna Pírata er hins vegar sjálfstæðari sveitarfélög fjárhagslega. Sveitarfélög eiga að fá útsvar líka frá virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti, fyrirtækjaskatti svipað og ríkið. Það býr til hvata fyrir hið opinbera, fyrir sveitarfélögin að bjóða upp á miklu fjölbreyttari atvinnustarfsemi en sem grundvallast bara á fjölda íbúa og fermetrafjölda. Það býr til þann hvata að mjólkin sem er keypt út í búð skilar einhverju til sveitarfélagsins. Það býr til það að verktakar sem vinna í sveitarfélögunum skili einhverju til sveitarfélagsins. Það býður upp á svo miklu fjölbreyttari atvinnuþróun fyrir sveitarfélög landsins að hafa mun víðtækari tekjustofna en nú eru og þetta ölmusuamband sem við erum í.

Að lokum vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að svara orðum hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar áðan þar sem hann fór miður fögrum orðum um fjárhag höfuðborgarinnar, Reykjavíkurborgar, þegar það er mjög augljóst að skuldahlutfall (Forseti hringir.) sveitarfélaganna í kringum höfuðborgina er verra. Ef það á að gagnrýna höfuðborgina verður að gagnrýna öll önnur sveitarfélög sem eru í nákvæmlega sömu stöðu.