151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna í landinu, einkum þeirra sem hafa þurft að taka á sig mestan skellinn. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustóli að ég skil ekki hvers vegna hæstv. ríkisstjórn dregur lappirnar í stuðningi við sveitarfélögin í landinu. Bæði hæstv. sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa sýnt mikið skilningsleysi að mínu mati á rekstri stærri sveitarfélaga og þeirra verkefna sem að þeim snúa í atvinnukreppu.

Þann 22. apríl sl. átti hv. þm. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, orðastað við hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála um vanda sveitarfélaganna sem blasti við þá strax og hann spurði hvernig ríkisstjórnin ætlaði að beita sér en þá var fátt um svör. Allir sem hafa komið að rekstri sveitarfélaga hljóta að átta sig á að mörg sveitarfélög munu ekki geta rekið sig án stuðnings frá ríkinu. Hann þarf að vera mun meiri og skilvirkari en hæstv. ráðherra lýsti hér áðan í ræðu sinni. Með beinum stuðningi ríkisins til sveitarfélaga má forðast niðurskurð í nærþjónustu við íbúa og frekari fækkun starfa með frestun framkvæmda. Það er rétt að gera bæði út frá atvinnustigi í atvinnukreppu en einnig vegna þess að samdráttur í velferðarþjónustu sveitarfélaga kallar á aukinn kostnað ríkisins til lengri tíma. Byggðastefna ríkisstjórnarinnar, sem lætur það afskiptalaust að fólk flytji þaðan sem fær hvorki vinnu né félagsþjónustu eða býr við samdrátt í þjónustu við börn, fatlaða og aðra þá sem treysta á þjónustu sveitarfélaganna, er arfavitlaus.

Það er eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar að Alþingi feli ríkisstjórninni að undirbúa og hrinda í framkvæmd aðgerðum sem miða að því að styðja sveitarfélögin vegna aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldursins og að ríkið komi til móts við sveitarfélögin, bæði í gegnum jöfnunarsjóð og eins með beinum framlögum vegna útsvarstekjufalls.