151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[18:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Líkt og kom fram í máli formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óla Björns Kárasonar, var einhugur í nefndinni um þetta frumvarp og hafði auðvitað verið kallað eftir því og við þekkjum mörg dæmi um aðila sem munu geta nýtt sér þau úrræði sem felast í frumvarpinu. Ég get nefnt veitingastaði sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli þó að þeim hafi ekki verið gert að loka, einfaldlega vegna þess að þeir þurfa að fara eftir fjöldatakmörkunum og alls konar sóttvarnaaðgerðum. Nefnt hefur verið að tannsmiðir urðu fyrir miklu tekjufalli vegna þess að tannlæknar þurftu að loka og auðvitað allir listamennirnir sem urðu fyrir tekjufalli vegna þess að viðburðum var aflýst.

Þetta mál held ég að sé mjög gott og samstarfið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd varðandi öll þessi Covid-mál hefur verið afar gott og við erum ekkert að hugsa um það hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu heldur setjumst við yfir málið og tillit er tekið til sjónarmiða. Við erum ekki alltaf sammála. En þessi bragur samvinnunnar er ekki síst formanni nefndarinnar að þakka sem hefur búið hann til og mér finnst skipta máli að það komi fram að þó að við séum ósammála í pólitík þá skiptir máli að bragurinn á samstarfinu innan nefndanna sé með þessum hætti.

Ég ætla ekki að fara yfir nákvæmlega yfir frumvarpið. Hv. þm. Óli Björn Kárason gerði það ágætlega hér áðan. Mig langar samt að vekja athygli á tvennu sem stendur í nefndarálitinu varðandi samkeppnissjónarmið, með leyfi forseta:

„Opinber stuðningur við fyrirtæki er hluti af bráðaaðgerðum en getur haft áhrif á samkeppnisaðstæður á komandi árum. Vegna þessa telur nefndin nauðsynlegt að yfirvöld samkeppnismála meti reynsluna af opinberum stuðningsaðgerðum við atvinnulífið og geri opinberlega grein fyrir niðurstöðunum.“

Það finnst mér skipta mjög miklu máli. Aðgerðir hafa verið margar, smáar og stórar, frestun á greiðslum, lán og styrkir og niðurfelling á gjöldum o.s.frv. Það þarf að vega það og meta allt saman og við viljum alls ekki að heimsfaraldurinn og afleiðingar hans verði til þess að stóru fyrirtækin nái hér góðri markaðshlutdeild og hin smærri leggi upp laupana vegna þess að það skiptir okkur mjög miklu máli þegar við vöxum út úr þessum faraldri að það sé virk samkeppni og smærri fyrirtækin lifi og geti líka veitt þeim stærri aðhald og ástandið verði ekki þannig að samkeppni verði lítil og verð hækki hér vegna þess og þjónustan versni. Það skiptir okkur mjög miklu máli í uppbyggingarstarfinu að halda utan um þau mál.

Síðan er hitt atriðið sem ég vil nefna varðandi nefndarálitið það að talað er um framhald hlutabótaleiðarinnar og í nokkrum umsögnum sem nefndin fékk nefndu umsagnaraðilar að það væri gott að hafa einhvern fyrirsjáanleika, að framlengja hlutabótaleiðina og að hún myndi miðast við lægra hlutfall en 50%. Margir töluðu um 25% og ég hef talað við marga atvinnurekendur og þeir nefna margir að það sé betra í ástandinu að halda ráðningarsambandi við fjóra starfsmenn í 25% starfi heldur en tvo í 50% starfi, svo dæmi séu tekin. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að stjórnvöld fari í og ég gat ekki fengið félaga mína í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að benda á frumvarp Samfylkingarinnar sem er núna til meðferðar í velferðarnefnd um nákvæmlega þessi mál og mæla með því að þingheimur myndi bara samþykkja það frumvarp en alla vega er þá talað um mikilvægi þess að taka það mál upp sem allra fyrst og ég vona að það komi sem fyrst frá ríkisstjórninni því að þarna er um gott mál að ræða.

En í þessu máli, forseti, sem er eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar, er ekki bara talað um framlengingu á hlutabótaleiðinni til 1. júní á næsta ári og að starfshlutfallið megi fara niður í 25% heldur er þar líka talað um að hækka þurfi grunnatvinnuleysisbætur og mæta þeim sem fengu ekki sex mánaða lengingu á tekjutengda tímabilinu. Því að það er þannig, forseti, að það er ekki nóg að mæta tekjufalli fyrirtækja — það er mikilvægt að gera það og við þurfum að huga að því hvernig uppbyggingin getur farið af stað hratt og vel þegar faraldurinn hefur gengið yfir — það þarf líka að mæta tekjufalli heimila og sérstaklega þeirra sem hafa orðið fyrir mesta áfallinu, þ.e. þeirra sem hafa misst vinnuna. Þess vegna finnst okkur í Samfylkingunni að við þurfum að horfa á þetta í samhengi og hækka grunnatvinnuleysisbætur og lengja tímabilið sem atvinnulausir hafa til að fá atvinnuleysisbætur.

Síðan erum við með sérstakt vandamál sem ráðherrar og forystumenn í hæstv. ríkisstjórn hafa sagt að þeir ætli að leysa en ég sé hvergi merki um að það sé á döfinni. Í ágúst voru 12.000 manns á grunnatvinnuleysisbótum og voru komin á grunnatvinnuleysisbætur þá þegar en lenging á tekjutengda tímabilinu úr þremur mánuðum í sex mánuði á aðeins við þá sem voru á tekjutengda tímabilinu í september þegar frumvarpið tók gildi. Þarna eru 12.000 manns sem höfðu aðeins fengið þriggja mánaða tekjutengt tímabil og tryggja verður jafnræði að þessu leyti. Það er ekki hægt að segja að sumir fái bara þrjá mánuði en aðrir fá sex og engin rök fyrir því önnur en þau að þeir sem eru á þriggja mánaða tímabilinu hafa verið mun lengur atvinnulausir og eiga í meiri erfiðleikum en hinir sem hafa verið skemur atvinnulausir. Að framlengja tekjutengda tímabilið fyrir alla kostar rétt tæpa 6 milljarða kr. Ef allir fengju hámarkið væru það 456.000 kr. á tekjutengda tímabilinu en auðvitað er ekki svo þannig að tæplega 6 milljarðar færu í þessa aðgerð að hámarki og hún er nauðsynleg. Það er ekki ásættanlegt ef stjórnvöld ætla ekki að taka á þessu máli.

Forseti. Það sem mér finnst vanta hjá stjórnvöldum í því ástandi sem við erum í nú er plan. Það er ekkert plan. Allar þessar aðgerðir sem við höfum farið með í gegnum þingið eru viðbrögð við ástandi og það er mjög skiljanlegt að í byrjun hafi ekki verið neitt plan, þá þurfti að bregðast hratt við og sýnilegustu vandamálin voru tækluð. En núna þurfum við plan, við þurfum að gera ráð fyrir því að faraldurinn geti dregist á langinn og hvernig ætlum við að bregðast við því? Við þurfum líka að setja upp plan fyrir uppbygginguna. Hvernig ætlum við að byggja upp? Þetta skortir og við verðum að horfa á hlutina í heild, við verðum að skapa atvinnu, við verðum að halda uppi velferð og við verðum að vinna gegn loftslagsvá af manna völdum.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram plan í þeim efnum sem við höfum kosið að kalla ábyrgu leiðina. Það er leið jafnaðarmanna út úr heimsfaraldri og ég vil ráðleggja hæstv. ríkisstjórn að fletta þeirri bók og taka upp hugmyndir sem örugglega gætu hugnast öllum flokkum. Loftslagsváin hefur ekki horfið þó að við höfum ekki talað eins mikið um hana vegna þess að við erum að bregðast við heimsfaraldri. Við verðum að byggja upp til grænnar framtíðar. Uppbyggingin verður að vera græn. Atvinnuuppbyggingin verður að vera græn. Það eru þau skref sem við þurfum að skipuleggja. Ég er ekki sammála því sem hv. stjórnarþingmenn hafa sagt hér í þessum ræðustóli að núna sé ekki tíminn til að tala um grænar lausnir. Núna er einmitt tíminn til að tala um grænar lausnir af því við þurfum að vaxa upp úr þessum öldudal og við þurfum að gera það þannig að það haldi til framtíðar. Auðvitað er mikilvægast að hafa fjölbreytt atvinnulíf og skapa störf en þau mega ekki vera bara hvernig sem er. Við þurfum að taka tillit til þess að við erum hér að glíma við stærsta sameiginlega verkefni mannkyns sem eru loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Að því sögðu, forseti, vil ég aftur lýsa ánægju minni með þetta frumvarp en kalla eftir plani ríkisstjórnarinnar bæði í bráð og lengd.