151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Starfsumhverfi heilbrigðisþjónustunnar er reglulega til umræðu í þinginu. Minni hlutinn í þinginu þreytist ekki á að benda á það sem betur má fara. Vissulega er margt sem betur má fara í heilbrigðiskerfinu sem nú upplifir sína erfiðustu tíma. En það eru samt 18 þingmenn sem telja að ekki sé nóg að gert í heilbrigðiskerfinu, þingmenn sem margoft hafa rætt um vandamál og mönnun í heilbrigðiskerfinu, lélega aðstöðu, of mikið álag, of lítið fjármagn, of lág laun og að þar sé allt í volli. Samt erum við að tala um eitt af bestu heilbrigðiskerfum í heimi. Þessir þingmenn munu í dag flytja þingsályktunartillögu sem felur í sér aukið álag á heilbrigðiskerfið og þó fyrst og fremst á Landspítalanum. Það er sem sagt verið að flytja þingsályktunartillögu um aðgengi fyrir konur til að ferðast til Íslands í fóstureyðingu. Þingsályktunartillagan á fyrst og fremst við íbúa í Póllandi og Möltu, en þeir eru samtals 38,2 milljónir. Fram kom í þættinum Heimskviðum í Ríkisútvarpinu, þar sem þessi þingsályktunartillaga var til umfjöllunar, að á bilinu 100.000–200.000 ólöglegar fóstureyðingar ættu sér stað á hverju ári í Póllandi.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér, þótt ekki væri nema að brot af þessum fóstureyðingum ætti að flytjast á Landspítalann, hvernig staðan verði á þungsetnum spítalanum og kvennadeildinni. Ég velti líka fyrir mér kostnaðinum, virðulegur forseti: Hver á að greiða fyrir flug og gistingu? Hver greiðir fyrir viðtal, þjónustu og aðgerðirnar sem á eftir fylgir? Hver greiðir fyrir eftirfylgnina, sálfræðiaðstoðina og annað sem hér er í boði?

Virðulegi forseti. Ég spyr hvort það sé hlutverk heilbrigðiskerfisins á Íslandi að bregðast við pólitísku heilbrigðisvandamáli tugmilljóna þjóða þegar við glímum við biðlista í heilbrigðiskerfinu sem okkur dreymir öll um að eyða.

Virðulegur forseti. Er svona tillaga ekki atlaga að íslensku heilbrigðiskerfi?