151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:41]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Hlutverk Alþingis sem málstofu leiðir bara af löggjafarhlutverkinu svo það þarf nú ekki að halda því sérstaklega til haga. En það liggur hins vegar fyrir að almannavarnir hafa beint tilmælum eða sett reglur sem m.a. hafa beinst að íþróttasambandinu og skólastjórnendafélaginu nú síðast, sem virðast valda einhverri upplýsingaóreiðu um það hvaða reglur gilda. Það er vont að heyra það ef hæstv. heilbrigðisráðherra telur það ekki vera á sínu borði hvaða sóttvarnareglum almannavarnir beina til einstaklinga í landinu og ef einhver áhöld eru uppi um það hvaða reglur raunverulega gildi hér. Heilbrigðisráðherra telur að þessi reglugerð standist allar reglur og vísar um það til skýrslu Páls Hreinssonar sem hér hefur verið rædd. Sú skýrsla er afdráttarlaus um það að heimildir stjórnvalda og heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis takmarkast mjög við þann tíma og það neyðarástand sem er uppi.

Ég vil spyrja ráðherrann hvort hún telji að reglugerðin eins og hún er í dag, reglugerð sem bannar hreinlega (Forseti hringir.) orðrétt „allar íþróttir barna og fullorðinna hvort sem er innan dyra eða utan dyra“, óháð tilefni eða heilsufari (Forseti hringir.) — hvort slíkar reglur settar með reglugerð standist stjórnskipan Íslands.