151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega hárrétt. Ég held að við höfum öll fundið fyrir því sem höfum verið í forystu varðandi þessar sóttvarnaaðgerðir að við þurfum að átta okkur á því að það eru fleiri leiðir til að miðla upplýsingum en í gegnum upplýsingafundi Almannavarna. Áhorfið á þann ágæta dagskrárlið er mismunandi eftir aldursstigum o.s.frv. og við finnum fyrir því að það er áskorun að ná til yngra fólks. En það er ekki síður áskorun að ná inn í skólana og tryggja að upplýsingar og skilningur á markmiði með sóttvarnaaðgerðum séu fyrir hendi þar.

En um leið, eins og ég vék að í fyrra andsvari við annan þingmann, þurfum við líka að gæta að því að fyrir liggi upplýsingar um það. Af hverju er gripið til þessara ráðstafana fyrir þennan aldurshóp en ekki fyrir þennan aldurshóp o.s.frv.? Við sjáum það núna að smitin hafa verið að færast í yngri aldurshópa, það er almenn tölfræði, en við sjáum líka að það eru ekki mörg smit sem berast á milli barna eftir því sem þau eru yngri. Það er í raun og veru þekkingin sem við getum staðið okkur betur í að miðla.