151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns varðandi málefni framhaldsskólanema. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt mjög mikla áherslu á þessi mál og hefur gert það í samskiptum við mig sem heilbrigðisráðherra, ekki síst þegar um er að ræða skóla sem búa við þröngan húsakost af því að þeir skólar ráða í raun og veru ekki við að uppfylla sóttvarnaráðstafanir. Það er áhyggjuefni og þá þyrfti mögulega að líta til annarra valkosta í húsnæði til að tryggja kennslu ungmennanna og ekki síst á þeim tímum þegar þessar ráðstafanir eru hvað harðastar. Ég held að við séum algerlega sammála í grundvallaratriðum því að þessi hópur er mjög viðkvæmur fyrir öllum skakkaföllum og brotthvarf getur verið mjög afdrifaríkt á þessum aldri og getur breytt öllu um framtíðaráform og framtíðarmöguleika krakka þannig að út frá samfélagslegum sjónarmiðum er ég algerlega sammála en ég vil árétta það sem ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, mínar heimildir snúast í raun og veru alltaf um að gera ráðstafanir sem byggjast á sóttvarnasjónarmiðum þannig að lengra get ég í raun og veru sem heilbrigðisráðherra ekki teygt mig en ef sýnt þykir að ráðstafanirnar séu ekki á kostnað sóttvarna þá erum við algerlega samstiga, ég og hæstv. menntamálaráðherra, í því að gera eins og við getum í því að tryggja staðnám framhaldsskólanema.