151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

umræða um sóttvarnaráðstafanir.

[12:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Þótt þessi umræða, sem núna lauk, um skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir hafi verið alveg ljómandi góð og til þess fallin að gefa hv. þingmönnum tækifæri á að eiga orðastað við og spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um ýmislegt, og hér var farið vítt og breitt yfir málið, held ég að það hljóti að blasa við öllum að þetta fyrirkomulag sem slíkt, þ.e. umræða í þessari málstofu, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra vísaði til að væri mikilvægt að viðhafa og ég tek undir það, er ekki heppilegt til upplýsingar á málunum út frá hlutverki Alþingis sem löggjafa og eftirlitsaðila gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi það eða beindi þeirri spurningu til hv. þingmanna oftar en einu sinni hvaða skoðun þeir hefðu á málinu og hvaða aðgerðir þeir myndu vilja hafa uppi er því til að svara að þingmenn hafa engar upplýsingar um þessar sóttvarnaaðgerðir, hafa engin gögn um málið til að geta svarað þessum spurningum. (Forseti hringir.)

Þess vegna ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, og legg áherslu á það við hæstv. heilbrigðisráðherra, (Forseti hringir.) að þessi mál, sóttvarnaaðgerðir í þessu ástandi, komi til þingsins í formi þingmála(Forseti hringir.) þannig að þingið geti fjallað um málið með þinglegri meðferð, með viðeigandi gögnum og upplýsingum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)