151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[14:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef breytingartillaga hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar fjallaði um vinnumarkaðinn almennt myndi ég sennilega greiða atkvæði með henni og reyndar held ég að ákvæðið í heild sinni væri útfært öðruvísi ef svo væri. Hins vegar er hér um að ræða störf þingmanna og nefndarálit meiri hlutans tekur vel á áhyggjum sem koma fram í áliti minni hlutans. Því greiði ég atkvæði gegn tillögu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar en að sjálfsögðu með málinu í heild. Þá vil ég einnig segja að mér finnst að við hefðum getað gengið lengra. Ég geri ráð fyrir því að við gerum það í framtíðinni. Ég sá hreinlega ekki ástæðu til að leggja fram breytingartillögu þess efnis þar sem í frumvarpinu er fjallað um störf okkar alþingismanna sjálfra og sá ekki ástæðu til að fara í miklar málalengingar við aðra þingmenn umfram það sem þegar hefur verið gert. Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)