151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu frá Miðflokknum. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég furða mig mjög á því að hér eru taldir upp 24 punktar, sem allir tengjast landbúnaðarmálum, en engu að síður gengur ályktunin út á að fela forsætisráðherra að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd í samstarfi við bændur. Ég velti fyrir mér hver tilgangur þess var en þegar ég var búin að lesa tillöguna í gegn þá kemur fram í lokasetningunni, með leyfi forseta:

„Flutningsmenn tillögunnar telja augljóst hve mikilvægur landbúnaður er fyrir þjóðarhag og þjóðaröryggi og því er þessari tillögu beint til forsætisráðherra sem forystumanns ríkisstjórnarinnar og formanns þjóðaröryggisráðs.“

Mér leikur forvitni á að vita, virðulegur forseti, til hvaða nefndar þetta mál mun fara.

(Forseti (WÞÞ): Því er beint til hv. atvinnuveganefndar.)

Takk fyrir það, virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér, bara svona í ljósi þess að hér er verið að tala um þjóðaröryggismál, hvort ekki sé rétt að þetta mál fari til utanríkismálanefndar. Ég heyrði líka á tal hv. þingmanna sem voru að ræða hér á undan mér og þeir voru farnir að ræða ansi mikið utanríkismál. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki eðlileg framvinda í þessu máli.

Ég vil þó segja það um landbúnað sem mjög mikilvæga atvinnugrein, út frá þeirri umræðu sem hefur verið hér, að tækifæri Íslands sem matvælaframleiðslulands, til að stunda heilnæma og umhverfisvæna matvælaframleiðslu, er auðvitað gríðarlegt. Við erum þekkt fyrir sjávarútveg okkar og auðvitað eru tækifæri til landbúnaðar líka. Ég sé það nú reyndar þegar ég les yfir þessa punkta að auðvitað er hluti af þeim þegar í farvatninu eða í farvegi nú þegar. En ég beini því til flutningsmanna og kannski forseta jafnframt hvort þetta sé mál sem eigi ekki frekar heima í utanríkismálanefnd.