151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið alveg hjartanlega undir þessi orð. Vandamál okkar er skipulag sveitarfélaganna, hversu mismunandi þau eru, og aðstæður þeirra fyrir sjálfbærni eru ekkert rosalega góðar. En frá mínum bæjardyrum séð er það vegna takmörkunar ríkisins. Hv. formaður fjárlaganefndar nefndi það um daginn í ræðu að leggja ætti til fjármagn til þeirra sveitarfélaga sem þyrftu á því að halda. En það er takmörkunaraðstoð. Það er ekki aðstoð sem segir: Hérna er það sem þið þurfið til að verða sjálfbær og geta reddað þessu sjálf. Það er ölmususamband þarna á milli sem ég get ég ekki fallist á. Ég myndi miklu frekar vilja hafa sveitarfélög með sjálfstæða tekjustofna þannig að þau geti gert sem best úr aðstæðum, það sem þeim dettur í hug. Það ætti að gefa þeim útsvarshluta, t.d. af virðisauka, af fjármagnstekjuskatti, líka af fyrirtækjaskattinum, þannig að atvinnuuppbygging og atvinnuáætlun þeirra sé ekki háð því að íbúar séu margir og fermetrar séu margir. Atvinnuuppbygging getur líka byggst á fáu fólki á fáum fermetrum. Hún getur byggst upp á því að þegar ferðamenn ferðast um sveitarfélögin og kaupa mjólk úti í búð skili það sér til sveitarfélagsins, að þegar verktakar gera upp hús o.s.frv. skili hluti af virðisaukaskattinum af því verkefni sér til sveitarfélagsins en ekki til ríkisins. Rafvirkjar, píparar o.s.frv., hafa alla tíð í rauninni bara greitt til ríkisins en ekki í leikskólana á svæðinu. Þess vegna er vandamálið, sem ég sé og er ekki búið að leysa í áratugi, vegna þess hvernig ríkinu hefur verið stjórnað.