151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að geta sagt hv. þingkonu að Reykjanesbær hefur verið afskaplega vel rekinn undanfarin sjö ár með Samfylkinguna m.a. í meiri hluta. Sem betur fer var búið að taka á fjárhagsvanda sveitarfélagsins og rétta hann við eftir meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Þegar niðursveiflan kom stóð sveitarfélagið þannig að vígi að það er ekki enn komið í stórkostlegan vanda. En ég, þekkjandi rekstur sveitarfélaga, get ekki séð að sveitarfélag sem býr við þetta ástand geti haldið uppi toppþjónustu og geti svarað kröfum, sem eru enn ríkari við þessar óvenjulegu aðstæður, í nærþjónustunni nema ríkið stígi inn í þennan bráðavanda.

Ég tek auðvitað undir með hv. þingmanni þegar hún bendir á tækifærin sem eru víða á Suðurnesjum. En augljóslega var höggið þar líka mest út af alþjóðaflugvellinum þótt við sjáum alveg að framtíðin geti orðið björt í alls konar atvinnutækifærum, beinum og óbeinum, í tengslum við flugvöllinn þegar við erum búin að fá bóluefni við faraldrinum. En það er bráðavandi núna. Það þarf að bregðast við honum og það er það sem ég er að kalla eftir.

Mig langar samt aðeins, þó að klukkan tifi hér í borðinu, að tala um útboðið og af hverju okkur finnst mikilvægt að gera þessar tímabundnu ráðstafanir. Ég tek undir það með hv. þingmanni þegar hún segir að sveitarfélög vilji hafa útboð. Það fylgir því spillingarhætta ef við ætlum að sleppa útboðum á framkvæmdum. En það má gera þetta núna, til þess að flýta framkvæmdum, (Forseti hringir.) tímabundið í þessu neyðarástandi og það er það sem við erum að tala um.