151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla fyrst að þakka framsöguna, þetta er mál sem tekur á þeirri hlið útlendingamála sem við ræðum allt of sjaldan miðað við hina hliðina, ef svo mætti segja, sem eru hælisleitendurnir, fólkið á flótta. Þau mál blandast oft, eins og við upplifðum t.d. þegar Albanir urðu áberandi í hæliskerfinu okkar en hefðu mögulega notið góðs af kerfi sem byði upp á auðveldara dvalarleyfi á grundvelli atvinnu. Þetta er þörf breyting og löngu tímabær, svo að ekki sé horft til þess að Ísland er allt of lokað. Við þurfum að vera fleiri og fjölbreyttari. Þetta er breyting sem hefur verið kallað eftir lengi og hefur verið nefnd reglulega í tengslum við einstaka mál sem komast í fréttir, einmitt um hælisleitendur sem verða einhverra hluta vegna fréttaefni. Þá hefur viðkvæðið undanfarin misseri verið það að frekar en að breyta hæliskerfinu, það eigi að vera neyðarkerfi, eigi að beita sér fyrir því að tryggja fólki utan EES greiðari leiðir inn sem vinnandi fólk, eins og lagt er til hér. Ég held að þetta hafi heyrst frá fulltrúum allra flokka stjórnarinnar.

Þá langar mig að spyrja: Af hverju kemur málið svona til þingsins? Er ekki plan ríkisstjórnarinnar að gera eitthvað svona? Af hverju kemur ekki fullbúið frumvarp inn á þetta þing núna til að gera þetta? Er þetta ekki á plani ríkisstjórnarinnar?