151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

réttur barna til að þekkja uppruna sinn.

192. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga er flutt af mér sem fyrsta flutningsmanni og hv. þingmönnum Birni Leví Gunnarssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Helgu Völu Helgadóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Tillagan var flutt í fyrsta sinn á 141. löggjafarþingi af fyrrverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttur en ég endurflyt nú tillöguna nær óbreytta í sjötta sinn. Þetta er því í sjöunda sinn sem þessi þingsályktunartillaga er flutt. Þá kynni einhver að spyrja: Er þetta þá ekki bara svona lélegt mál? Nei, svo er ekki. Það er nú þannig hér í þinginu að það tekur oft dágóðan tíma fyrir almenna þingmenn eins og mig að koma málum á dagskrá. Síðan tekur tíma að fá þau á dagskrá í þeirri nefnd sem mál fara til, svo tekur tíma að ræða þau þar og fá álit og sjónarmið alls konar aðila og svo aftur afgreiðslu í þinginu. Þetta tekur því allt afskaplega langan tíma og þingveturinn er nú frekar stuttur þegar til þess er horft.

Þetta mál hefur einungis tvisvar sinnum komist til nefndar og þá seinni part þingvetrar. Ég fer betur yfir það á eftir. Umsagnirnar sem málið fékk í þessi tvö skipti voru mjög jákvæðar. Annað sem undirstrikar að málið sé gott og þarft er að nágrannalönd okkar, sem við horfum helst til í samanburði hvað varðar mannréttindi og velferðarmál, þ.e. Norðurlöndin og Bretland í þessu tilfelli, hafa öll breytt lögum sínum á þann hátt sem hér er lagt til að gert verði.

Með þessari tillögu er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að undirbúa lagabreytingu sem tryggi að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun, gjafaeggi eða gjafasæði eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn. Lögin nú eru þannig að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun hafa ekki sjálfstæðan rétt á að fá upplýsingar um hver kynfrumugjafinn er ef notað er gjafaegg eða gjafasæði. Lögin eru þannig að óski gjafinn eftir því að vera nafnlaus er heilbrigðisstarfsfólki skylt að gæta nafnleyndar hans. Hafi nafnleyndar ekki verið óskað af kynfrumugjafanum gæti barnið óskað eftir og fengið upplýsingar um kynfrumugjafann. Eins og lögin eru núna er valdið í rauninni hjá kynfrumugjafanum, hvort hann leyfi að barnið fái upplýsingar um sig eða ekki. Barnið hefur ekki sjálfstæðan rétt á því að fá upplýsingar um hvert þess líffræðilega foreldri er.

Rökin fyrir því að hafa þetta eins og það hefur verið á Íslandi eru þau að ef krafa væri gerð um að kynfrumugjafi yrði að gefa upp nafn eða að barnið gæti fengið upplýsingar um hann eftir einhvern árafjölda myndi kynfrumugjöfum fækka verulega og líkurnar minnka á því að þeir einstaklingar sem óska þess að verða foreldrar, en geta kannski ekki lagt til kynfrumur sínar og þurfa á því að halda að fá þær annars staðar frá, geti átt barn saman.

Í fyrsta lagi langar mig að segja um þessi rök að þau halda í raun ekki þegar betur er að gáð. Varðandi siðfræðilegan hluta þessara raka vil ég vísa í, og það er farið yfir það í greinargerð málsins, bókina Siðfræði lífs og dauða frá árinu 2003. Höfundur hennar er Vilhjálmur Árnason. Hann bendir á að ekki megi ýta til hliðar þeim brýnu hagsmunum barns að þekkja uppruna sinn til þess eins að bæta úr barnleysi og lina þær þjáningar sem því kunna að fylgja. Með því skapist hætta á að farið verði, með leyfi forseta:

„… að nota barnið sem tæki til að þjóna markmiðum foreldra en horft fram hjá því að það er einstaklingur með sjálfstæð réttindi og hagsmuni.“

Flutningsmenn þessa máls telja mjög mikilvægt að réttindi einstaklings sem getinn er með gjafakynfrumum séu sett í forgrunn og að honum sé tryggður með lögum sjálfstæður réttur til að fá að þekkja uppruna sinn. Reynslan frá Svíþjóð sýnir okkur að þegar lögunum var breytt þar fækkaði kynfrumugjöfum og framboðið minnkaði um tíma en svo jókst það aftur og náði aftur að verða svipað og það var fyrir lagabreytingarnar. Þetta stenst því ekki skoðun á hvorn veginn sem er, hvorki siðfræðilega né að gjöfunum fækki. Fyrst og fremst erum við að horfa á réttindi einstaklingsins, réttindi barnsins sem getið er með gjafafrumum, að réttindi þess séu sett í forgrunn og þau tryggð með lögum.

Við vitum svo margt núna sem við vissum kannski ekki áður, bara vegna þess að upplýsingagjöf er orðin svo mikil. Fólk er kannski farið að opna sig meira en áður í fjölmiðlum um persónuleg málefni. Hér á landi hafa verið sýndir þættir, alla vega tvær seríur held ég, þar sem fjallað er um einstaklinga sem hafa verið ættleiddir til Íslands og hafa haft þörf fyrir að leita uppruna síns. Þessir þættir heita Leitin að upprunanum og voru sýndir á Stöð 2. Í þáttunum birtast okkur einstaklingar sem höfðu djúpa innri þörf til að leita uppruna síns á fullorðinsárum. Við kynnumst þessu fólki og þetta er flókið. Í öllum tilfellum áttu þessir einstaklingar mjög góða foreldra hér á Íslandi en það er þessi þörf að vita: Hvaðan kem ég? Af hverju er ég eins og ég er? Þetta er kannski líka spurning um arfgenga sjúkdóma og annað sem sumum finnst mikilvægt að fá upplýsingar um, ekki öllum. Þetta er mjög einstaklingsbundið. Þess vegna kemur fram í greinargerðinni að auðvitað sé mikilvægt að þó að lögunum verði breytt og börn sem getin eru með þessum hætti öðlist sjálfstæðan rétt til að fá að þekkja uppruna sinn þá verði einnig að virða friðhelgi þeirra og að þessum upplýsingum verði þá ekki þröngvað upp á fólk heldur gætu þær verið fólki aðgengilegar ef það óskar eftir að fá þær,

Í greinargerðinni eru taldar upp nokkrar skýrslur og fjölmargar rannsóknir á þessu sviði. Ég ætla nú kannski ekkert að tína það allt saman til en það er töluverð umfjöllun um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og nefndar greinar í honum sem styðja í raun við að lagabreytingar þær sem lagðar eru til í þessu máli séu gerðar og séu þá í samræmi við barnasáttmálann. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990, fullgiltur árið 1992 og lögfestur hér á landi með lögum 2013. Í sáttmálanum felst viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Þetta er svolítið rauði þráðurinn í þessu máli sem og svo mörgum öðrum sem fram hafa komið hér á Alþingi síðustu ár. Lengi vel, ég myndi segja framan af 20. öldinni og fram eftir þeirri 21., hefur svolítið verið horft á börn sem lægra sett, mögulega sem einhverja svona fylgihluti sem eiga ekkert endilega að hafa rétt. Valdið eigi alltaf að vera hjá forráðamönnum eða bara fullorðnum. En í barnasáttmálanum er í raun verið að viðurkenna að börnin séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi, óháð réttindum fullorðinna.

Ég tíni hér til t.d. 7. gr. barnasáttmálans. Þar er kveðið á um réttindi barns til að vera skráð eftir fæðingu, fá nafn, ríkisfang og að vita um foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Ég vitna líka í sænska skýrslu sem er frá 2007. Ég get svo sem lesið nafnið á henni, virðulegi forseti, með leyfi þínu, en hún er á sænsku og heitir Föräldraskap vid assisterad befruktning. Í þeirri skýrslu kemur fram að réttur barns til að fá vitneskju um foreldra sína hafi við samningu sáttmálans fyrst og fremst varðað réttindi ættleiddra barna til að vita um erfðafræðilega foreldra sína. Kynfrumugjafir eru náttúrlega orðnar algengari og verða sífellt algengari vegna þess að frjósemi okkar er að minnka af ýmsum ástæðum. Frá því að sáttmálinn kom fram og var undirritaður árið 1990 hefur komið upp álitamál varðandi þessa 7. gr. Það er samdóma álit að þetta eigi við ættleidd börn en álitamálið felst í því hvort í ákvæðinu felist einnig réttur barna, sem hafa verið getin með tæknifrjóvgun og aðstoð kynfrumugjafa, til að þekkja uppruna sinn.

Almennt séð hefur sá skilningur ekki verið lagður í ákvæðið. Það er því ekki hægt að fullyrða það hér að öll aðildarríki að barnasáttmálanum hafi þann skilning á þessari grein. Eins og ég nefndi í byrjun hafa nágrannalönd okkar sem við berum okkur helst saman við, og ég nefndi hér, Norðurlöndin og Bretland, engu að síður þegar breytt þessu í löggjöf sinni, þ.e. tryggt börnum sem getin eru með kynfrumugjöf sjálfstæðan rétt til að fá upplýsingar um uppruna sinn. Í Svíþjóð var það gert árið 2006 og í Danmörku árið 2011. Þar geta einstaklingar sem eru orðnir 18 ára fengið upplýsingar um kynfrumugjafa. Í Finnlandi var lögum breytt árið 2006, árið 2005 í Noregi og Bretlandi og skýrt er kveðið á um að barn geti við 18 ára aldur fengið upplýsingar um uppruna sinn og hver kynfrumugjafinn var.

Þetta er þróunin í kringum okkur og ég held að það sé alveg tími til kominn. Þetta er í sjöunda skipti sem málið er flutt hér. Það er bara fyrri parturinn í nóvember enn þá þannig að við ættum að hafa þennan þingvetur fyrir okkur til að skoða málið betur. Eins og ég nefndi áðan liggja fyrir jákvæðar umsagnir frá fyrri þingum. Í báðum tilfellum benti Persónuvernd á að gæta þyrfti að ákveðnum ákvæðum í persónuverndarlögum sem er náttúrlega eðlilegt að gera og ætti að vera vel hægt.

Hér er lagt til að ráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en í janúar 2021. Sumum kann að þykja þetta skammur tími en það er vel gerlegt þar sem við erum með löggjöf í nágrannaríkjunum sem væri hægt að horfa til. Flutningsmenn vísa þá sérstaklega til sænskra laga og leggja til að horft verði til þeirrar löggjafar við vinnuna.