151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru .

160. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, framlengingu á bráðabirgðaheimildum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara, Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra og Maríu Káradóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Dagmar Ösp Vésteinsdóttur frá Ákærendafélagi Íslands, Ólöfu Finnsdóttur frá dómstólasýslunni, Kjartan Bjarna Björgvinsson frá Dómarafélagi Íslands, Svavar Pálsson og Kristínu Þórðardóttur frá sýslumannaráði, Þuríði Árnadóttur frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Guðmund Inga Þóroddsson frá Afstöðu, félagi fanga.

Nefndinni bárust umsagnir frá Ákærendafélagi Íslands, dómstólasýslunni og héraðssaksóknara.

Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaheimildir lögreglu, sýslumannsembætta og dómstóla til að beita í auknum mæli rafrænum lausnum við meðferð mála og fjarfundabúnaði verði framlengdar til 31. desember 2021. Þá er lögð til breyting á bráðabirgðaheimildum laga um meðferð einkamála og laga um meðferð sakamála í því skyni að taka af allan vafa um að þingfesta megi mál á fjarfundi.

Enn sem komið er hefur ekki reynt mikið á bráðabirgðaheimildirnar við meðferð mála hjá sýslumannsembættunum en fyrir liggur að embættin munu í auknum mæli þurfa að beita rafrænum lausnum. Jafnframt hefur þetta fyrirkomulag reynst vel við meðferð mála hjá lögreglu og engir meinbugir komið í ljós. Þá var samhljómur á meðal gesta um að bráðabirgðaheimildirnar hafi gefist vel við meðferð mála hjá dómstólum en skortur á viðeigandi tækjabúnaði hafi komið í veg fyrir nýtingu þeirra en þó væri verið að bæta úr því. Þá var nefndinni bent á að mismunandi kröfur hafi verið gerðar þegar skýrslugjöf sakbornings, ákærða og lykilvitna hafi farið fram á fjarfundi.

Meiri hlutinn áréttar að ef fyrirséð verður í einstökum málum að ekki verði unnt með bráðabirgðaheimildunum að tryggja að fullu réttindi sakborninga og annarra málsaðila verður að telja að forsendur fyrir beitingu þeirra séu ekki fyrir hendi og vísar meiri hlutinn að öðru leyti til skýringa við 1. og 2. gr. frumvarpsins. Dómarar verði þannig að meta aðstæður í einstökum málum og meta hvaða skilyrði verði sett fyrir tilhöguninni hverju sinni. Þannig má ætla að eftir því sem meiri hagsmunir eru undir því brýnna sé að sakborningur, ákærði og lykilvitni mæti á ákveðinn stað til að sanna á sér deili og séu í einrúmi til að tryggja að enginn hafi áhrif á framburð þeirra. Til hliðsjónar megi hafa þau sjónarmið til grundvallar sem koma fram í úrskurði Landsréttar frá 1. október 2020 í máli nr. 551/2020. Þá sæta úrskurðir héraðsdómara um atriði er varðar skýrslugjöf fyrir dómi kæru til Landsréttar, samanber n-lið 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og b-lið 1. mgr. 143. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Að öðru leyti áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að bráðabirgðaheimildirnar verði framlengdar þannig að dómstólar, lögregla og sýslumannsembættin geti áfram sinnt lögbundnu hlutverki sínu og málsaðilar verði ekki fyrir réttarspjöllum.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta ritar sá sem hér stendur, Páll Magnússon, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.