151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:53]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek bara undir þessa áminningu um söguna og sögu íslenskra kvenna sem þurftu að leita til útlanda eftir þeirri heilbrigðisþjónustu sem þungunarrof er.

Mig langar líka aðeins að minna á samband Íslands og Póllands. Það er gott og djúpstætt. Hér búa um 8.100 konur frá Póllandi á aldrinum 15–90 ára og þá eru ótaldar pólskar konur sem hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt, sem bætast við þessa tölu. Þessar konur hafa verið ómissandi þáttur íslensks samfélags, eins og ég minnti á hérna áðan, undanfarin ár og áratugi. Við skuldum þeim líka að standa af öllu afli með réttindum kvenna í heimalandi þeirra. Það er skuld okkar við pólskar konur.