151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að í þessari stöðu er álag á alla, það er álag á allt starfsfólkið, á kennara, á nemendur, á alla. En ég verð samt að segja að skólastjórnendur, kennarar og allir þeir sem starfa í skólunum hafa nálgast þetta viðfangsefni af mikilli seiglu og þeir ætla sér að koma öllum í gegnum þetta. Að því sögðu er alveg ljóst að við munum þurfa að styðja við allt okkar skólafólk inn í framtíðina vegna þess að það gerðist nánast yfir nótt að kennararnir fóru inn í fjarkennslu. Þeir höfðu ekki verið í mikilli fjarkennslu en þeir tileinkuðu sér hana á mjög skömmum tíma. Og það gerðu nemendurnir líka. Það reynir auðvitað á að kenna eins og framhaldsskólakennarar hafa verið að gera, í sex, sjö, átta tíma í fjarkennslu, og svo leiðbeina þeir nemendum eftir það.

Ég fullvissa þingheim um að við fylgjumst mjög vel með þessu og ég spyr reglulega um þetta, vegna þess að þetta er mannauðurinn okkar í íslensku samfélagi. Ef við ætlum að vera með framúrskarandi menntakerfi og fara í menntaumbætur þá þarf alltaf að huga sérstaklega vel að kennurum vegna þess að það eru kennararnir, auðvitað ásamt öðrum sem þarna eru, sem bera kerfið uppi. Ef við pössum ekki upp á það er alveg ljóst að eitthvað gefur sig.