151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þegar við vorum að taka þessar ákvarðanir höfðum við það að leiðarljósi að tryggja sem mesta kennslu og að börnin gætu farið í skólann. Það var það sem skipti okkur mestu máli. Þegar við vorum að taka þessa ákvörðun litum við á aldursskeið barnanna varðandi grímunotkunina af því að okkur fannst það skipta máli. Við ráðfærðum okkur að sjálfsögðu við heilbrigðisyfirvöld, við sóttvarnalækni og við alla þá sem komu að því máli. En það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu er að við höldum skólunum okkar gangandi og við höfum lagt býsna mikið á okkur hvað það varðar.

Við litum líka til erlendra rannsókna um það hvernig hægt sé að tryggja sem mest öryggi. Ég vil líka nefna það að í þessari þriðju bylgju eru stjórnmálin alls staðar í Evrópu, ekki eins mikið í Bandaríkjunum, að forgangsraða í þágu barna, í þágu þess að þau geti mætt í skólann sinn.